Blaklandslið Íslands í flokki U18 bæði drengja og stúlkna skrifuðu söguna upp á nýtt með stórkostlegum árangri á Evrópumóti smáþjóða. Bæði lið unnu mótið og tryggðu sér á sama tíma sæti á lokamóti EM en þetta er í fyrsta skiptið sem íslensk blaklandslið ná þessum árangri í þessum aldursflokki.
KA átti hvorki fleiri né færri en átta fulltrúa í liðunum en alls voru fimm KA strákar í drengjalandsliðinu en það voru þeir Ágúst Leó Sigurfinsson, Eiríkur Hrafn Baldvinsson, Hákon Freyr Arnarsson, Kristján Már Árnason og Þórarinn Bergur Arinbjarnarson. Þrjár KA stelpur voru svo í stúlknalandsliðinu en það voru þær Anika Snædís Gautadóttir, Kara Margrét Árnadóttir og Katla Fönn Valsdóttir. Auk þess var KA konan Jóna Margrét Arnarsdóttir aðstoðarþjálfari hjá stelpunum.
Mótið fór fram í Dublin á Írlandi og var eðlilega mikil eftirvænting í hópnum, bæði lið sýndu styrk sinn strax frá fyrsta leik en strákarnir hófu mótið á að vinna mjög sannfærandi 3-0 sigra á bæði Skotlandi og Norður-Írlandi. Stelpurnar unnu 3-1 sigur á Færeyjum áður en þær unnu tvo 3-0 sigra á liði Liecthenstein og Norður-Írlandi. Með þessum sigrum tryggðu bæði lið sér sæti í úrslitaleiknum en þar var barist um sæti á lokamóti EM.
Það fór svo að bæði strákarnir og stelpurnar kláruðu dæmið með glæsibrag, strákarnir unnu heimamenn í Írlandi í úrslitaleiknum 3-0 og stelpurnar unnu góðan 3-1 sigur á Færeyjum. Þá var Hákon Freyr Arnarson valinn í draumalið mótsins. Eins og áður segir er árangurinn sögulegur en aldrei hefur íslenskt blaklandslið í þessum aldursflokki komist á lokakeppni EM og raunar hefur það aldrei gerst að Ísland keppi til úrslita á Evrópumóti smáþjóða.
Fjöldi fulltrúa KA í hópnum sýnir enn og aftur hve öflugt starf er unnið í blakdeild KA og erum við ákaflega stolt af okkar frábæru fulltrúum. Þá má einnig geta þess að KA maðurinn Sævar Guðmundsson dæmdi á mótinu en Sævar hefur verið einn besti blakdómari Íslands um áraraðir.