KA sótti þrjú stig á Húsavík

Blak
KA sótti þrjú stig á Húsavík
Flottur sigur staðreynd (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti lið Völsungs heim í Mizunodeild kvenna í blaki í gærkvöldi en liðin mættust nýverið í KA-Heimilinu þar sem KA fór með 3-0 sigur af hólmi. Það var þó ljóst að verkefni kvöldsins yrði ekki auðvelt en í lið KA vantaði þær Huldu Elmu Eysteinsdóttur og Birnu Baldursdóttur sem leika stórt hlutverk í liðinu.

Leikurinn fór vel af stað hjá okkar liði og náðu stelpurnar frumkvæðinu strax. Á endanum vannst öruggur 16-25 sigur í fyrstu hrinu og útlitið ansi gott. En það býr þó nokkuð í liði Völsungs og miklu meiri spenna var í næstu hrinu. Eftir mikla baráttu tókst heimastúlkum að jafna metin í 1-1 með 25-23 sigri.

Okkar lið gerði mjög vel í kjölfarið og svaraði fyrir töpuðu hrinuna með 17-25 sigri í þeirri næstu og því enn í góðri stöðu á að sækja öll þrjú stigin sem í boði voru. Það var þó heldur betur mótspyrna í þeirri vegferð og eftir svakalega fjórðu hrinu tókst stelpunum að innbyrða 23-25 sigur og þar af leiðandi 1-3 útisigur staðreynd.

Paula del Olmo átti frábæran leik og var stigahæst á vellinum með 21 stig. Helena Kristín Gunnarsdóttir átti einnig skínandi leik og gerði 17 stig, þá verður að minnast á Jónu Margréti Arnarsdóttur sem gerði 11 stig en hún er aðeins 15 ára gömul og er að sýna að hún er svo sannarlega klár í slaginn gegn þeim bestu.

KA liðið er því komið aftur á sigurbraut eftir tapið í oddahrinu gegn Þrótti Nes. um helgina og mjög jákvætt að sækja öll stigin gegn öflugu liði Húsvíkinga. Framundan er hinsvegar svakalegt verkefni því um helgina mætir liðið HK tvívegis í Kópavogi en lið HK hefur unnið fyrstu 5 leiki sína og er með fullt hús stiga.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is