Kara, Katla og Sveinbjörg stóðu sig vel á SCA í Dublin

Kara, Sveinbjörg og Katla stóðu sig vel á stóra sviðinu
Kara, Sveinbjörg og Katla stóðu sig vel á stóra sviðinu

KA átti þrjá fulltrúa í kvennalandsliði Íslands í blaki sem keppti á Evrópukeppni Smáþjóða (SCA) í Dublin en þetta eru þær Kara Margrét Árnadóttir, Katla Fönn Valsdóttir og Sveinbjörg Lilja Ingólfsdóttir.

Ísland tefldi fram skemmtilegu liði á mótinu en kvennalandsliðið tók nýverið þátt í Silver League keppninni og því var ákveðið að senda yngri leikmenn úr U17 og U19 ára landsliðunum til Írlands.

Það var því vitað að það væri krefjandi verkefni framundan fyrir hið unga lið Íslands en þær Kara, Katla og Sveinbjörg hafa allar leikið með meistaraflokksliði KA og hafa sýnt það heldur betur að þær eru klárar í slaginn.

Fyrsti leikurinn var gegn San Marino og tapaðist hann 0-3 þrátt fyrir fína takta en hrinurnar fóru 18-25, 15-25 og 19-25. Stelpurnar sýndu hinsvegar enn betri frammistöðu gegn heimakonum í írska liðinu en sá leikur fór á endanum í upphækkun í oddahrinu sem því miður tapaðist og fór leikurinn því 2-3. Hrinurnar voru allar hnífjafnar og fóru 25-21, 23-25, 22-25, 25-22 og 14-16.

Stelpurnar gerðu sér svo lítið fyrir og unnu Norður-Írland í næsta leik 3-1 þar sem hrinurnar fóru 25-23, 23-25, 25-16 og 25-19. Í lokaleiknum var andstæðingurinn sterkt lið Skotlands og fór að lokum að Skotar unnu 0-3 sigur þar sem hrinurnar fóru 17-25, 13-25 og 16-25.

Virkilega flott frammistaða hjá hinu unga liði Íslands en allir leikmenn liðsins voru að taka þátt í sínu fyrsta landsliðsverkefni í flokki fullorðinna. Þær Kara, Katla og Sveinbjörg stóðu vel fyrir sínu og afar gaman að sjá þær fá þetta flotta tækifæri.