Lokahóf blakdeildar KA fór fram um helgina

Blakdeild KA fagnaði stórbrotnu tímabili á dögunum en bæði karla- og kvennalið KA eru Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar og Deildarmeistarar auk þess sem kvennalið KA er Meistari Meistaranna. Karlarnir léku ekki í Meistarar Meistaranna og vann blakdeildin því alla þá titla sem í boði voru þetta tímabilið.

Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir og Antoni Jan Zurawski voru valin bestu liðsfélagarnir en bæði eru þau afar jákvæð og drífa liðsfélaga sína áfram og því vel að heiðrinum komin.

Miguel Mateo Castrillo var verðlaunaður fyrir árangur vetrarins en hann er aðalþjálfari bæði karla- og kvennaliðs KA og hefur lyft starfi deildarinnar upp í hæstu hæðir.

Þau Hákon Freyr Arnarsson og Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir voru valin efnilegustu leikmenn liðanna en þau voru bæði vant við látin vegna æfinga fyrir komandi strandblakssumars. Mateo þjálfari hitti þó á þau bæði og kom verðlaununum til þeirra.

Sölvi Páll Sigurpálsson og Oscar Fernández Celis voru heiðraðir fyrir að spila sinn 100. leik fyrir KA í vetur

Amelía Ýr Sigurðardóttir, Heiðrún Júlía Gunnarsdóttir og Oscar Fernández Celis voru kvödd með KA treyjum sem leikmenn beggja liða árituðu í bak og fyrir og þökkuðu fyrir frábæra tíma í gulu treyjunni.

Oscar var kvaddur sérstaklega af stjórn blakdeildar en hann hefur verið yfirþjálfari blakdeildar undanfarin ár auk þess að þjálfa fjölmarga iðkendur hjá deildinni undanfarin fimm ár. Sem leikmaður hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna með KA.

Í vetur voru þær Amelía Ýr Sigurðardóttir, Julia Bonet Carreras og Paula del Olmo voru valdar í úrvalslið ársins auk þess sem Julia var valin besti erlendi leikmaður Unbrokendeildarinnar en hún var einnig stigahæsti leikmaður deildarinnar.

Hjá strákunum voru þeir Zdravko Kamenov, Mateusz Jeleniewski, Gísli Marteinn Baldvinsson og Miguel Mateo Castrillo valdir í úrvalslið Unbrokendeildarinnar. Auk þess var Gísli Marteinn valinn besti íslenski leikmaðurinn og Zdravko besti erlendi leikmaðurinn.

Þá voru þau Gísli Marteinn Baldvinsson og Julia Bonet Carreras voru valin bestu leikmenn úrslitakeppninnar af Blaksambandi Íslands. Fyrr í vetur voru svo Zdravko og Paula valin bestu leikmenn bikarúrslitaleikjanna.

Að lokum þakkaði blakdeildin sérstaklega honum Kristjáni Þorsteinssyni fyrir samstarfið í vetur en Kristján sem gegnir húsvarðarstöðu í KA-Heimilinu er alltaf klár í að leggja sig allan fram við að aðstoða og koma hlutunum í rétt horf fyrir allar deildir félagsins og gaman að sjá blakdeildina verðlauna þennan mikla höfðingja.