Öruggur sigur KA á Neskaupstað

Blak
Öruggur sigur KA á Neskaupstað
Frábær frammistaða í kvöld! (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti Þrótt Neskaupstað heim í Mizunodeild kvenna í blaki í kvöld en KA hafði sótt sex stig gegn Þrótti Reykjavík um helgina og gat með sigri í kvöld komið sér enn nær HK og Aftureldingu sem eru á toppi deildarinnar.

Það kom strax í ljós að stelpurnar okkar voru mættar austur til að sækja öll stigin og þær tóku í raun öll völd á vellinum strax frá upphafi. Mesta spennan var í fyrstu hrinu en KA liðið leiddi þó ávallt og frábær endasprettur tryggði 17-25 sigur og kom KA í 0-1.

Önnur hrina var svo algjör einstefna þar sem stelpurnar okkar léku við hvurn sinn fingur og hreinlega völtuðu yfir Þróttara. Að lokum vannst 13-25 sigur í hrinunni og KA því í lykilstöðu 0-2.

Stelpurnar héldu áfram að þjarma að heimaliðinu í upphafi þriðju hrinu og komust strax í 1-9 forystu. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn í hrinunni myndi enda þó Þróttur hafi náð að laga stöðuna aðeins undir lokin. KA vann þriðju hrinu 19-25 og þar með leikinn samanlagt 0-3 og mikilvæg þrjú stig í hús.

Frammistaða okkar liðs var ansi sannfærandi í kvöld og útlit fyrir að stelpurnar séu búnar að finna taktinn. Áfram þurfa þær þó að vera duglegar að safna stigum og vonast eftir því að toppliðin misstigi sig. Afturelding varð af einu stigi í kvöld er liðið vann Álftanes 3-2 en HK vann öruggan 3-0 sigur á Þrótti Reykjavík.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is