Sannfærandi 0-3 sigur á Þrótti Reykjavík

Blak
Sannfærandi 0-3 sigur á Þrótti Reykjavík
5 sigrar af 5 mögulegum um helgina (mynd: EBF)

Kvennalið KA í blaki lék í dag lokaleik sinn fyrir NEVZA Evrópukeppnina þegar liðið sótti Þrótt Reykjavík heim í Mizunodeildinni. Fyrr um helgina hafði liðið unnið góða sigra á Álftanesi og Álftanesi 2 en KA og HK eru í harðri baráttu um Deildarmeistaratitilinn og mátti okkar lið alls ekki misstíga sig í leik dagsins.

Byrjunin á leiknum var frábær en KA gerði fyrstu fimm stigin og tók strax þægilegt tak á leiknum. Um miðbik hrinunnar jókst forskotið og á endanum vannst afar þægilegur 15-25 sigur og staðan orðin 0-1.

Eftir jafnan leik í upphafi þeirrar næstu kom öflugur 1-7 kafli hjá okkar liði og virtust stelpurnar ætla að vinna annan öruggan sigur. En Þróttarar komu til baka og jöfnuðu metin í 18-18 og áfram var jafnt í 19-19 og 20-20. KA liðið hefur þó sýnt gríðarlegan karakter í vetur og unnið ófáar jafnar hrinur á lokasprettinum og það varð aftur raunin nú og lokatölur 22-25.

Þróttur komst í 4-1 og ætlaði klárlega að gera allt hvað liðið gat til að standa í okkar liði. En þá kom svakalegur kafli hjá okkar liði sem gerði útum hrinuna því staðan varð 6-17. Á endanum vannst ákaflega sannfærandi 13-25 sigur og í heildina 0-3 sigur staðreynd.

Paula del Olmo var stigahæst hjá KA með 13 stig, Helena Kristín Gunnarsdóttir 9, Hulda Elma Eysteinsdóttir 8, Birna Baldursdóttir 7, Gígja Guðnadóttir 6, Luz Medina 3 og Ásta Lilja Harðardóttir 1 stig.

Það er því ansi góð blakhelgi sem nú er liðin undir lok, tveir sigrar hjá karlaliðinu og þrír sigrar hjá kvennaliðinu. Bæði lið eru í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins á næstunni auk þess sem bæði lið eru á toppi Mizunodeildanna. Stelpurnar eru fjórum stigum fyrir ofan HK sem á þó leik til góða.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is