Sigur og tap á Ísafirði hjá körlunum

Blak
Sigur og tap á Ísafirði hjá körlunum
Strákana vantar stöðugleika í sinn leik (mynd EBF)

KA sótti Vestra heim í tveimur leikjum í Mizunodeild karla í blaki um helgina. KA liðið hefur ekki fundið þann stöðugleika sem hefur einkennt liðið undanfarin ár og er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni í vor sem er vissulega ný staða fyrir lið sem hefur unnið allt sem hægt er undanfarin tvö ár.

Fyrri leikur liðanna fór jafnt og spennandi af stað en með flottum lokakafla í fyrstu hrinu tókst KA liðinu að vinna 22-25 og leiddi því 0-1. Heimamenn byrjuðu þá næstu betur en þegar leið á sýndi okkar lið styrk sinn og unnu að lokum góðan 19-25 sigur og því komið í lykilstöðu. Þá stöðu nýttu strákarnir sér vel því þeir keyrðu yfir lið Vestra í þriðju hrinu og unnu hana 16-25 og leikinn því samtals 0-3.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA með 17 stig, Alexander Arnar Þórisson 13, Benedikt Rúnar Valtýsson 9, Hermann Biering Ottósson 6, Filip Pawel Szewczyk 6 og Gunnar Pálmi Hannesson 5 stig.

En stöðugleikann hefur vantað í liðið og það sannaðist er liðin mættust aftur í dag. Vestramenn unnu fyrstu hrinuna 25-23 eftir að þeir höfðu leitt mest með sex stigum í stöðunni 19-13. Ekki fylgdu betri hlutir í þeirri næstu því Vestri komst í 9-3 og var sigur þeirra í annarri hrinu í raun aldrei í hættu. Á endanum unnu þeir 25-16 og komnir í 2-0.

Þá loks kviknaði á okkar mönnum og þeir svöruðu með flottum 17-25 sigri í þriðju hrinu og aftur í þeirri fjórðu með 14-25 sigri. Leikurinn fór því í oddahrinu og spilamennska liðsins þannig að flestir reiknuðu með að KA liðið myndi klára þar dæmið.

En þar svöruðu heimamenn loks fyrir sig og þeir unnu hana sannfærandi 15-9 og tóku því leikinn 3-2. Afar svekkjandi að strákarnir skyldu ekki ná að tengja sigurinn góða frá deginum áður en þó ber að hrósa liðinu fyrir að ná allavega stigi útúr leiknum eftir að hafa lent 2-0 undir.

Alexander Arnar Þórisson og Miguel Mateo voru stigahæstir með 19 stig, Benedikt Rúnar Valtýsson 7, Filip Pawel Szewczyk 5, Gunnar Pálmi Hannesson 4 og Gísli Marteinn Baldvinsson 3.

KA liðið er þar með komið með 12 stig eftir 10 leiki og er jafnt Aftureldingu í 4.-5. sæti deildarinnar. Aðeins efstu fjögur liðin fara í úrslitakeppnina og ljóst að strákarnir þurfa að berjast fyrir hverju einasta stigi sem eftir er til að tryggja þátttöku þar. Vestri er hinsvegar á botni deildarinnar með 5 stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is