Sigur og tap gegn Aftureldingu

Blak
Sigur og tap gegn Aftureldingu
Stelpurnar fóru á toppinn (mynd: Þórir Tryggva)

Karla- og kvennalið KA í blaki léku fyrri leiki sína gegn Aftureldingu í dag en liðin mætast aftur á morgun, sunnudag. Karlarnir eru nú þegar orðnir Deildarmeistarar og var því lítið undir hjá þeim á meðan konurnar freistuðu þess að endurheimta toppsætið í deildinni.

Strákarnir hófu daginn þar sem KA liðið róteraði töluvert í byrjunarliðinu og var gaman að sjá strákana sem hafa fengið takmarkað að spila undanfarið fá að spreita sig. Svakaleg spenna var í fyrstu hrinu þar sem jafnt var á nánast öllum tölum og aldrei munaði meira en tveimur stigum á liðunum. KA vann á endanum 26-24 sigur og ljóst að krefjandi verkefni var framundan.

Önnur hrina hófst á svipuðum nótum, mikil spenna og lítill munur á liðunum. En þegar leið á hrinuna reyndust gestirnir sterkari og þeir unnu 22-25 sigur og jöfnuðu metin í 1-1. Í kjölfarið náði okkar lið aldrei almennilegum takti og Mosfellingar nýttu sér það til hins ítrasta. Þeir unnu næstu hrinur 17-25 og 18-25 og þar með leikinn 1-3 og aðeins annað tap KA í vetur staðreynd.

Vissulega svekkjandi að tapa leiknum en hinsvegar verður að líta á það að leikurinn var gullið tækifæri á að gefa mönnum tækifæri á að sýna sig og margir strákanna gerðu það svo sannarlega. Liðin mætast svo aftur á morgun klukkan 13:00 þar sem strákarnir fá afhendan bikarinn fyrir Deildarmeistaratitilinn að honum loknum.

Kvennalið KA er hinsvegar í annarri stöðu í sinni deild þar sem gríðarlega hörð barátta er framundan við HK um Deildarmeistaratitilinn. KA liðið þurfti á þriggja stiga sigri að halda til að endurheimta toppsætið í deildinni á sama tíma og lið gestanna er að berjast fyrir fjórða sætinu í deildinni.

KA byrjaði leikinn betur og bætti við forystuna er á leið. Á endanum vannst 25-16 sigur og spilamennskan til fyrirmyndar. Gestirnir svöruðu fyrir sig í upphafi næstu hrinu en KA liðið sýndi styrk sinn og sneri leiknum við eftir að hafa meðal annars verið 5 stigum undir. KA vann aðra hrinu 25-21 og staðan orðin 2-0.

Aftur byrjuðu gestirnir hinsvegar vel í þeirri þriðju og komust í 6-12. Okkar lið reyndi sitt besta til að koma aftur til baka en mistökin voru full mörg sem gerðu það að verkum að Afturelding minnkaði muninn í 2-1 með 21-25 sigri.

Gríðarlega mikilvægt var fyrir okkar lið að vinna fjórðu hrinuna til að sækja öll stigin þrjú og það sást bersýnilega þar sem KA komst í 9-0. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn í hrinunni myndi enda og KA vann á endanum 25-15 sigur og leikinn samtals 3-1.

Stelpurnar eru því komnar aftur á toppinn en þurfa aftur á þriggja stiga sigri á morgun er liðin mætast klukkan 15:00 en 5 umferðir eru eftir af deildinni og líklegt að liðið þurfi að vinna alla leikina til að hampa bikarnum góða en aðeins munar einu stigi á KA og HK.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is