Strákarnir kláruðu Álftanes 0-3

Blak
Strákarnir kláruðu Álftanes 0-3
KA áfram á sigurbraut (mynd: Egill Bjarni)

KA sótti Álftanes heim í Mizunodeild karla í blaki í gær en KA liðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu og ætlaði sér öll stigin í toppbaráttunni. Álftanes hafði hinsvegar aðeins unnið einn leik og var strax ljóst að heimamenn myndu selja sig dýrt.

Filip Pawel Szewczyk uppspilari KA-liðsins varð fyrir meiðslum í síðasta leik og gat því ekki tekið þátt í leiknum á Álftanesi. Í hans stað kom André Collins spilandi þjálfari en André hefur þó iðulega leikið sem kantsmassari.

Strákarnir byrjuðu leikinn vel, náðu afgerandi forskoti og stefndi allt í öruggan sigur í fyrstu hrinu. KA leiddi 7-18 er heimamenn komu með sterkt áhlaup. Álftanes tókst að búa til töluverða spennu með því að minnka muninn í 22-24 en þá loks kom stigið mikilvæga og KA vann fyrstu hrinuna því 22-25.

Aftur byrjaði KA betur í annarri hrinu og leiddi 4-8 og 5-10 í upphafi. En nú tókst Álftnesingum að svara fyrr fyrir sig og úr varð spennandi hrina þar sem KA leiddi iðulega með einu til tveimur stigum. Á endasprettinum reyndist okkar lið sterkara og komst í lykilstöðu með 21-25 sigri.

Þriðja hrinan hófst svo á svipaðan hátt og fyrri tvær, KA byrjaði af krafti og tók forystuna. Mestur varð munurinn sjö stig en að lokum vannst 21-25 sigur og samanlagt þar með 0-3. Flott frammistaða hjá strákunum sem tryggðu sér dýrmæt þrjú stig í toppbaráttunni.

Það var virkilega jákvætt að sjá KA liðið byrja allar hrinurnar af krafti og gefa Álftnesingum lítinn möguleika á að svara fyrir sig. Það var í raun bara endaspretturinn í fyrstu hrinu þar sem stöðugleikann vantaði í okkar leik en sem betur fór kom það ekki að sök.

KA er þar með komið með 14 stig eftir 6 leiki í Mizunodeildinni og á leik til góða á HK og Hamar sem eru þar fyrir ofan. Nú skiptir öllu máli að halda áfram sama dampi og sækja mikilvæg stig enda stefnir í svakalega baráttu um deildarmeistaratitilinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is