Tveir góðir KA sigrar að Varmá

Blak
Tveir góðir KA sigrar að Varmá
Sterkur 0-3 sigur hjá þessum (mynd: Þórir Tryggva)

KA átti ansi góðan dag í Mosfellsbænum í dag þegar bæði karla- og kvennalið félagsins mættu Aftureldingu í íþróttahúsinu að Varmá. Bæði lið KA unnu fyrstu tvo leiki tímabilsins um síðustu helgi en strákarnir ætluðu sér að spila betur enda áttu þeir klárlega eitthvað inni þrátt fyrir sigrana á Álftanesi. Stelpurnar höfðu hinsvegar sýnt jafnari spilamennsku í sínum leikjum og virðast vera klárar í veturinn.

Það var þó búist við erfiðum leik hjá körlunum en Afturelding vann sterkan 1-3 sigur á HK í fyrsta leik sínum. Mosfellingar byrjuðu leikinn betur og leiddu lengst af, en KA liðið spilaði betur og betur er leið á leikinn og jöfnuðu í 15-15. Í kjölfarið var aldrei spurning hvar sigurinn í fyrstu hrinu myndi enda og KA vann 17-25 sigur.

Í þeirri næstu var byrjunin betri hjá strákunum og komust þeir í 6-13. Heimamenn náðu aldrei að minnka muninn meira en niður í 5 stig og að lokum vannst annar 17-25 sigur. Staðan orðin 0-2 og strákarnir að spila töluvert betur en í fyrstu leikjunum.

Strákarnir virtust ætla að taka þriðju hrinuna svo nokkuð sannfærandi en þeir leiddu frá fyrsta stigi og höfðu gott tak á leiknum. En liðsmenn Aftureldingar höfðu ekki sagt sitt síðasta og jöfnuðu í 18-18 og aftur í 19-19. KA liðið hefur þó sýnt það í ansi mörgum hrinum nú þegar að strákarnir hafa stáltaugar á lokakaflanum og unnu 20-25 sigur og þar af leiðandi 0-3 í heildina.

Stigaskorið var nokkuð dreift hjá KA liðinu en Miguel Mateo gerði 13 stig og þeir Mason Casner og Alexander Arnar gerðu 7 stig hvor. Þriðji sigur tímabilsins staðreynd og viss yfirlýsing hjá liðinu að sigra Aftureldingu jafnvel og raun ber vitni á útivelli. Liðin mætast aftur að Varmá á morgun klukkan 13:00 og verður áhugavert að sjá hvort strákarnir nái aftur að sækja sigur.

Kvennaliðin tóku svo við sviðinu í leik þar sem fyrirfram var reiknað með sigri KA liðsins. Fyrsta hrinan sýndi og sannaði að það var eitthvað bakvið þær spár því stelpurnar sýndu mjög gott blak og unnu sannfærandi 16-25 sigur.

Áfram var spilamennskan frábær hjá okkar liði í upphafi næstu hrinu og náðist strax gott forskot. Stelpurnar voru ekki í miklum vandræðum með að halda forskotinu og unnu á endanum 18-25 sigur og staðan því orðin 0-2 í leiknum.

Það leit allt út fyrir að stelpurnar væru að fara að landa öruggum sigri en lið Aftureldingar kom gríðarlega vel stemmt í þriðju hrinuna og leiddu frá upphafi. KA liðið kom með nokkur áhlaup en aldrei tókst að brúa bilið. Á endanum kom slæmur kafli og Afturelding vann 25-18 sigur og minnkaði muninn í 1-2.

En stelpurnar sýndu flottan karakter og bættu leik sinn í fjórðu hrinunni. Þær leiddu hrinuna en heimastúlkur voru komnar í gang og gáfu hörkuleik. Spennan var gríðarleg enda mikilvægt fyrir stelpurnar að vinna leikinn í hrinunni til að tryggja öll stigin þrjú. KA komst í 21-24 og þrátt fyrir gríðarlega baráttu heimastúlkna vannst á endanum 23-25 sigur og í heildina 1-3 sigur.

KA er því áfram með fullt hús stiga í Mizunodeild kvenna eftir fyrstu þrjá leikina sem er frábært og verður gaman að sjá næsta leik sem er á miðvikudaginn þegar Völsungur sækir liðið heim í KA-Heimilið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is