KA átti þrjá fulltrúa á SCA keppni smáþjóða í strandblaki í flokki U19 sem fór fram á Írlandi undanfarna daga og lauk í dag. Þetta eru þau Auður Pétursdóttir, Ágúst Leó Sigurfinnsson og Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir.
Það má með sanni segja að okkar fulltrúar hafi staðið sig frábærlega en öll koma þau heim með verðlaun af mótinu. Stelpnamegin lék Auður með Hrefnu Ágústu Marinósdóttur á meðan Sóldís lék með Helenu Kristjánsdóttur. Báðum liðum gekk frábærlega og endaði með því að þau mættust í undanúrslitunum en þar unnu Sóldís og Helena 2-0 sigur og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleiknum.
Auður og Hrefna svöruðu vel fyrir sig og unnu sannfærandi 2-0 sigur á liði Færeyja og tryggðu sér þar með bronsverðlaunin. Í úrslitaleiknum mættu Sóldís og Helena liði Írlands, þær unnu afar sannfærandi 21-10 sigur í fyrstu hrinu en heimastúlkur svöruðu með 10-21 sigri í þeirri annarri og því var leikin oddahrina. Þar var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og unnu Sóldís og Helena hana 15-6 og tryggðu sér þar með gullverðlaunin.
Ágúst lék með Emil Má Diatlovic og gerðu þeir ansi vel að komast í undanúrslitin þar sem þeir mættu liði Andorra. Eftir tap í fyrstu hrinu sneru þeir leiknum sér ívil og unnu að lokum sannfærandi sigur eftir oddahrinu. Í úrslitaleiknum mættu þeir liði heimamanna og þar var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda en Ágúst og Emil höfðu mikla yfirburði í 2-0 sigri sem tryggði þeim gullverðlaunin á mótinu.
Frábær úrslit hjá okkar öflugu iðkendum en þess má geta að Ágúst lék einnig á SCA keppninni í flokki U17 í Andorra síðustu helgi þar sem hann fór einnig heim með gullverðlaun.
Hrefna og Sóldís
Ágúst og Emil
Auður og Hrefna