Tvö gull, silfur og brons á SCA keppni smáþjóða

Glæsilegur hópur Íslands með verðlaun sín!
Glæsilegur hópur Íslands með verðlaun sín!

KA átti fimm fulltrúa á SCA keppni smáþjóða sem fóru fram í Andorra síðustu daga og lauk í dag en fulltrúar KA voru fimm af átta liðsmönnum Íslands í keppni U17 í strandblaki. Þetta eru þau Anika Snædís Gautadóttir, Ágúst Leó Sigurfinnsson, Hákon Freyr Arnarsson, Katla Fönn Valsdóttir og Kara Margrét Árnadóttir.

Það má með sanni segja að árangur okkar fulltrúa hafi verið stórkostlegur en öll koma þau heim með verðlaun. Stúlknamegin komust bæði lið Íslands í úrslit þar sem þær Katla og Kara mættu Aniku og henni Þorbjörgu Rún Emilsdóttur. Úrslitaleikurinn var þrælspennandi og fór að lokum í oddahrinu þar sem Anika og Þorbjörg sóttu sigurinn og þar með gullið en Katla og Kara tóku silfrið heim.

Strákamegin mættust lið Íslands í undanúrslitunum en Hákon lék með Eiríki Hrafni Baldvinssyni á meðan Ágúst lék með Markúsi Frey Arnarssyni. Eftir spennandi leik voru það Ágúst og Markús sem fóru með sigur af hólmi og léku til úrslita. Hákon og Eiríkur svöruðu vel fyrir sig og unnu 2-0 sigur gegn Færeyingum í bronsleiknum en Ágúst og Markús héldu sigurgöngu sinni áfram og unnu frábæran 2-0 sigur á Skotlandi í úrslitaleiknum.

Allir keppendur okkar koma því heim með verðlaun eftir þetta þrælskemmtilega mót í Andorra og getum við verið ansi stolt af framgöngu þessa ungu og efnilegu fulltrúa okkar en þrátt fyrir ungan aldur hafa þau öll nú þegar brotið sér leið inn í meistaraflokkslið okkar í inniblaki.


Þorbjörg og Anika


Markús og Ágúst


Kara og Katla


Hákon og Eiríkur