Úrslitin í Kjörísbikarnum um helgina

Blak

Það er stór helgi framundan í blakheiminum þegar úrslitin ráðast í Kjörísbikarnum. Karla- og kvennalið KA verða í eldlínunni og alveg ljóst að bæði lið ætla sér áfram í úrslitaleikinn. Úrslitahelgi Kjörísbikarsins er í raun stóri viðburðurinn í blakheiminum ár hvert og frábært að bæði okkar lið séu með í ár.

Karlarnir ríða á vaðið en undanúrslit karla fara fram föstudaginn 1. apríl en fyrri viðureign dagsins er leikur HK og Hamars klukkan 17:30 og svo í kjölfarið mæta strákarnir okkar liði Vestra klukkan 20:00.

Konurnar eiga svo sviðið á laugardeginum en fyrri viðureign dagsins er leikur Aftureldingar og Álftanes klukkan 13:00 og í kjölfarið leika stelpurnar okkar gegn liði Þróttar Fjarðabyggðar klukkan 15:30.

Úrslitaleikirnir fara svo fram á sunnudeginum en allir leikir helgarinnar fara fram í Digranesi í Kópavogi. Úrslitaleikur karla fer fram klukkan 13:00 og úrslitaleikur kvenna fer svo fram klukkan 15:15.

Miðasalan er hafin í Stubb og hvetjum við alla sem geta til að mæta og styðja okkar mögnuðu lið áfram í úrslitaleikina.

Undanúrslitin verða sýnd beint á YouTube rás Blaksambands Íslands en úrslitaleikirnir á sunnudeginum verða í beinni útsendingu á RÚV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is