Yngriflokkamót 4. og 5. flokks í Kópavogi

Helgina 25. – 26. október fór fram fyrri hluti Íslandsmóts 4. og 5. flokks. Mótið fór fram í Digranesi í Kópavogi. Frá KA fóru 4 lið og var frábært að fylgjast með þeim sem og öðrum liðum. Gríðarleg framför hefur átt sér stað hjá krökkunum á undanförnum árum og er alveg með ólíkindum hversu flott blak þau eru farin að spila.

Fjórði flokkur kvenna spilaði 7 leiki og höfðu stelpurnar sigur í 4 leikjanna. Í þeim leikjum sem töpuðust var baráttan oft hörð og fá stig sem skildu á milli. Stelpurnar eru nú í 4. sæti eftir fyrri hlutann og ljóst að þær hafa mikinn metnað til þess að klifra upp í verðlaunasæti á síðari hluta mótsins í vor.  

Fjórði flokkur karla spilaði 6 leiki en náðu ekki sigri nema í einum leik. Þeir sýndu hins vegar gríðarlega góðan leik og áttu svo sannarlega skilið að ná sigri í fleiri leikjum. Þessir strákar eru allir á yngra ári í flokknum og eiga örugglega eftir að sanna sig á síðara mótinu í vor og á næsta ári. Þess má geta að í fyrra urðu þeir íslandsmeistarar í 5. flokki

Í 5. flokki karla spiluðu strákarnir okkar 7 leiki og var baráttan oft ansi hörð og enduðu 4 þessarra leikja í oddahrinu. Segir það sennilega allt sem segja þarf um það hversu mikil barátta var hjá liðunum í þessum flokki. Árangurinn í þessum flokki verður að teljast verulega góður enda forfölluðust 2 leikmenn KA á síðustu stundu fyrir ferðina og þurfti að fá lánaða hina ýmsu leikmenn til að liðið gæti spilað. Það er ekki auðvelt að fá nýja leikmenn beint inn í leiki en þau sem komu inn í liðið stóðu sig verulega vel og eiga þakkir skildar fyrir frammistöðu sína.

Í 5. flokki blandaðra liða var eitt lið frá KA. Allir liðsmenn þess eru í 6. flokki og því að spila upp fyrir sig og því var á brattann að sækja hjá þeim. Þó allir leikir þeirra hafi tapast þá geta þau verið stolt af árangri sínum því þau stóðu verulega í sumum andstæðingunum og höluðu inn fullt af stigum. Þessir krakkar eiga framtíðina fyrir sér í íþróttinni.

Úrslit mótsins í heild er að finna áwww.krakkablak.bli.is

Síðari hluti Íslandsmótsins fer fram á Akureyri dagana 17. – 19. apríl 2009. Á því móti verður keppt í 2., 3., 4. og 5. flokki og verður frábært fyrir krakkana að fá að spila á heimavelli – og frábært tækifæri fyrir bæjarbúa að koma og hvetja þau og sjá hversu sterk þau eru orðin í íþróttinni.