Mattýjarmót haldið í fyrsta skiptið

Matthea Sigurðardóttir (Mattý)
Matthea Sigurðardóttir (Mattý)

Mattýjarmót var haldið í fyrsta sinn þann 13. desember 2025.

Mótið er haldið til heiðurs Mattheu Sigurðardóttur, Mattý, fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf hennar í þágu deildarinnar í yfir 40 ár.

Ferill Mattýjar í fimleikum hófst aðeins átta ára að aldri og þakkar hún foreldrum sínum enn þann dag í dag fyrir að hafa kveikt áhuga hennar á íþróttinni. Á farsælum ferli sínum sem fimleikakona náði hún framúrskarandi árangri. Hún varð tvöfaldur unglingameistari Íslands og einu sinni þrefaldur unglingameistari, auk þess að vera margfaldur Akureyrarmeistari.

Mattý hefur gegnt ótal hlutverkum í þágu deildarinnar. Hún hefur þjálfað alla hópa í áhaldafimleikum, starfað innan hópfimleika, sinnt dómgæslu, verið fánaberi, aðstoðað og starfað á fjölmörgum mótum, auk þess að vera bæði mótstjóri og sýningarstjóri. Starf hennar hefur ávallt einkennst af óeigingirni og elju, og hún hefur lagt óteljandi klukkustundir í sjálfboðavinnu til eflingar fimleikunum.

Í dag starfar Mattý sem yfirþjálfari grunnhópa hjá deildinni, þar sem lögð er rík áhersla á sterkan grunn fyrir bæði áhalda- og hópfimleika, ásamt gleði, uppbyggingu og góðum gildum íþróttarinnar.

Mattýjarmót er því mót ætlað yngri iðkendum deildarinnar, með það markmið að undirbúa þau fyrir stærri keppnir í framtíðinni. Á þessu fyrsta Mattýjarmóti tóku um 100 iðkendur þátt og stóðu þau sig öll með miklum sóma.

Einkenni mótsins var gleði – og það var sannarlega í fyrirrúmi.

á Facebook síðu deildarinar má sjá myndir frá mótinu ásamt myndir af ferli Mattýjar okkar (sem iðkanda og þjálfara) : https://www.facebook.com/media/set?vanity=fimleikadeildka&set=a.1471461234980815