Skipulagsbreytingar á starfi fimleikadeildar

Sú erfiða ákvörðun var tekin á fundi stjórnar fimleikadeildar KA að leggja niður áhaldafimleika hjá deildinni tímabundið. Breytingin tekur gildi um áramót. Ákvörðunin var ekki léttvæg en fyrir henni eru þó nokkrar ástæður.

Ljóst hefur verið undanfarna mánuði að starfið hefur verið þungt. Tillögur til breytinga eins og t.d. samskiptasáttmáli og aðrar ráðstafanir hafa ekki gengið eftir og því ljóst að bregðast þurfti við, með hag iðkenda að leiðarljósi.

Tveimur af þjálfurum deildarinnar var því sagt upp 4. desember síðastliðin og þriðji þjálfarinn í fullu starfi sagði upp nokkrum vikum áður.

Leit hefur staðið að þjálfurum fyrir áhaldafimleika í þónokkurn tíma og aukinn kraftur var settur í hana í nóvembermánuði. Sú leit hefur því miður engu skilað og því er nauðsynlegt að setja áhaldafimleika á ís að minnsta kosti þar til aðrir góðir þjálfarar finnast.

Það er von okkar og trú að hluti iðkenda finni sér farveg í hópfimleikum eða þá öðrum deildum hjá KA. Okkur þykir leitt þetta rask sem hlýst af þessari ákvörðun en við erum sannfærð um að þetta sé rétt ákvörðun í ljósi alls sem undan er gengið.

Það er enn markmið deildarinnar að vera með áhaldafimleika og vonandi mun framtíðin bera það í skauti sér.

Deildin vill árétta þann misskilning að um fjárhagslega ákvörðun sé að ræða og að KA sé að færa til fé milli deilda en slíkt er fjarri sanni. Samstarf stjórnar fimleikadeildar KA, stjórnenda hjá KA og stjórnar og starfsfólks Fimleikasambands Íslands hefur verið til fyrirmyndar í þessum málum. Fjárhagur og rekstur fimleikadeildar KA er traustur og í góðum málum.