15 ár frá síðari Íslandsmeistaratitli KA í handbolta

Almennt | Handbolti
15 ár frá síðari Íslandsmeistaratitli KA í handbolta
Íslandsmeistarar KA 2002

Í dag, 10. maí, eru liðin 15 ár frá síðari Íslandsmeistaratitli KA í handknattleik sem vannst árið 2002. KA mætti liði Vals í úrslitaeinvíginu en Valsarar unnu fyrstu tvær viðureignir liðanna og voru því komnir í kjörstöðu til að landa titlinum. En lið KA sýndi gríðarlegan karakter og knúði fram hreinan úrslitaleik með því að vinna næstu tvo leiki. KA fullkomnaði endurkomuna með 21-24 sigri í lokaleiknum á Hlíðarenda og varð því Íslandsmeistari í annað sinn.

Það sem gerir þennan titil enn merkilegri er að lið KA hafði endað í 5. sæti í Deildarkeppninni þetta tímabilið og hafði því ekki heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Í undanúrslitum keppninnar sópaði liðið út ríkjandi Íslands-, Bikar og Deildarmeistarum Hauka sem hafði ekki tapað á heimavelli allt tímabilið. KA liðið sópaði einnig út liði Gróttu/KR í 8-liða úrslitunum.

Íslandsmeistarar KA í handknattleik 2002. Andrius Stelmokas, Arnar Sæþórsson, Árni Björn Þórarinsson, Arnór Atlason, Baldvin Þorsteinsson, Egidijus Petkevicius, Einar Logi Friðjónsson, Haddur Stefánsson, Halldór Jóhann Sigfússon, Hans Hreinsson, Heiðmar Felixson, Heimir Örn Árnason, Hreinn Hauksson, Ingólfur Axelsson, Jóhann Gunnar Jóhannsson, Jóhannes Ólafur Jóhanneesson, Jónatan Magnússon, Kári Garðarsson, Sævar Árnason. Atli Hilmarsson var þjálfari liðsins og Friðrik Sæmundur Sigfússon liðsstjóri.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is