Áki og Allan framlengja um 2 ár

Handbolti
Áki og Allan framlengja um 2 ár
Haddur formaður ásamt þeim Áka og Allan

Færeyingarnir knáu þeir Áki Egilsnes og Allan Norðberg skrifuðu í dag undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild KA og leika því áfram með Olísdeildarliði KA. Þetta eru frábærar fréttir enda leika þeir stórt hlutverk í liðinu auk þess sem þeir eru frábærir félagsmenn.

Áki er hægri skytta, 23 ára gamall og er að klára sitt þriðja tímabil með KA. Hann var markahæsti leikmaður liðsins þegar KA tryggði sér sæti í deild þeirra bestu og var þriðji markahæsti leikmaður Olís deildarinnar á síðustu leiktíð með 133 mörk. Áki hefur verið að stíga uppúr erfiðum meiðslum og kom ákaflega sterkur inn í síðasta leik.

Allan er 25 ára hægri hornamaður og er að klára sitt annað tímabil með KA. Hann hefur bætt sig mikið eftir komuna norður og er á meðal efstu manna í vetur yfir stolna bolta í Olís deildinni.

Það eru gríðarlega jákvæðar fréttir að halda þeim félögum innan okkar raða og stórt skref í undirbúningi fyrir næsta tímabil. Mikið og gott uppbyggingarstarf hefur verið unnið hjá Handknattleiksdeild KA frá því að samstarfinu um Akureyri Handboltafélagi var slitið og verður gaman að fylgjast áfram með gangi mála.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is