Evrópuleikir KA/Þórs gegn Elche í beinni

Handbolti
Evrópuleikir KA/Þórs gegn Elche í beinni
Stelpurnar eru mættar til Elche

KA/Þór er mætt til Elche á Spáni þar sem stelpurnar mæta heimaliðinu tvívegis í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna. Rétt eins og í síðasta einvígi munu stelpurnar spila báða leikina á útivelli en það kom ekki að sök er meistararnir frá Kósóvó, KHF Istogu, voru lagðir tvívegis að velli.

Elche er skammt frá Alicante og var ferðalagið því töluvert þægilegra að þessu sinni en síðast þurfti liðið að ferðast í 26 klukkustundir til að komast til Kósóvó og svo aftur til baka. Lið Elche er ríkjandi spænskur bikarmeistari og má því búast við ansi krefjandi en jafnframt skemmtilegu verkefni.

Liðin mætast á laugardag og sunnudag og hefjast leikirnir kl. 11:00 að íslenskum tíma. Báðir leikir verða í beinni á YouTube rás Elche og má nálgast útsendinguna frá fyrri leiknum hér fyrir neðan.

Stelpurnar hafa staðið í ströngu til að fjármagna þetta Evrópuverkefni og einn liður í því var stórglæsilegur Evrópukvöldverður á Vitanum í síðustu viku. Þar var boðið upp á frábæran þriggja rétta kvöldverð, Rúnar Eff tók lagið, Martha fyrirliði fór yfir eftirminnilega Kósóvóferð liðsins og þá stóð Elvar Jónsteinsson fyrir hinum ýmsu skemmtiatriðum. Egill Bjarni Friðjónsson var með myndavélina á lofti og er hægt að skoða myndir hans frá kvöldinu með því að smella á myndina hér fyrir neðan.


Smelltu á myndina til að skoða myndir frá Evrópukvöldverði KA/Þórs


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is