Gríðarlega mikilvægur útisigur á Fram

Handbolti
Gríðarlega mikilvægur útisigur á Fram
Áki sneri aftur! (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti Fram heim í 8. umferð Olís deildar karla í gær en leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Fyrir leikinn voru Framarar stigi fyrir ofan KA liðið en bæði lið ætla sér í úrslitakeppnina í vor  og því mikilvæg stig í húfi, auk þess sem að sigur í innbyrðisleikjunum getur vegið eins og aukastig þegar upp verður talið í vor.

Jafnt var á með liðunum fyrstu mínúturnar en ekki leið á löngu uns KA liðið náði að skilja sig frá Frömurunum. Um miðbik fyrri hálfleiks var staðan 5-9 fyrir KA og spilamennskan búin að vera mjög góð. Það munaði klárlega um að fá Færeyingana tvo, Áka og Allan, aftur í hópinn en þeir misstu af heimaleiknum gegn Stjörnunni vegna veikinda.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að laga stöðuna fyrir hálfleikinn en strákarnir voru með hausinn vel kaldan og náðu að halda aftur af Frömurunum og hálfleikstölur voru 10-14.

Byrjunin á síðari hálfleik var hinsvegar ekki nægilega góð og staðan var strax orðin 13-14 og fór aðeins um stuðningsmenn KA sem höfðu lagt leið sína í Safamýri. Stefán og Jónatan brugðu á það ráð að taka leikhlé og það skilaði sínu því strákarnir náðu fljótlega aftur fjögurra marka forskoti.

Það stefndi allt í öruggan sigur KA er staðan var 18-23 og aðeins átta mínútur eftir af leiknum. En eins og KA liðið sýndi í síðasta leik er liðið sneri tapaðri stöðu gegn Stjörnunni yfir í jafntefli þá er leikurinn ekki búinn fyrr en hann er búinn og Framarar söxuðu á.

Staðan var skyndilega orðin 24-25 þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks og aftur munaði einu marki í 25-26 og aðeins mínúta eftir. Dagur Gautason skoraði hinsvegar sigurmarkið góða á lokasekúndunum og tryggði gríðarlega mikilvægan 25-27 sigur.

Það er þó ljóst að strákarnir þurfa aðeins að fara yfir lokamínúturnar því það var í raun klaufagangur hjá heimamönnum í Fram að nýta sér ekki fjölmörg klaufamistök KA liðsins undir lokin betur en ella.

En þegar upp er staðið átti KA liðið svo sannarlega sigurinn skilinn og fer með sigrinum upp fyrir Fram og eru því komnir með 7 stig eftir fyrstu átta leiki vetrarins. Framundan er gríðarleg barátta í deildinni og ljóst að hvert einasta stig mun skipta gríðarlega miklu máli, þá sérstaklega gegn liðunum sem eru í sömu baráttu og við.

Áki Egilsnes var markahæstur í liði KA með 7 mörk, Andri Snær Stefánsson gerði 4 mörk úr vítum, Dagur Gautason gerði 4, Allan Norðberg 4, Patrekur Stefánsson 3, Daníel Örn Griffin 2, Daníel Matthíasson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1 og Jóhann Einarsson gerði 1 mark. Í markinu varði Jovan Kukobat 13 skot og stóð vel fyrir sínu.

KA sagði upp samningi sínum við Tarik Kasumovic fyrir leikinn og verður að hrósa strákunum gríðarlega fyrir spilamennskuna án Tariks. Hann hefur verið í lykilhlutverki í KA liðinu og hefði því alveg verið skiljanlegt að það tæki smá tíma að fylla hans skarð. En það er nóg af flottum leikmönnum í okkar liði sem lifa fyrir KA og við getum verið spennt fyrir næstu leikjum.

Næsti leikur er á sunnnudaginn gegn FH í KA-Heimilinu og klárt mál að við þurfum að fylla húsið til að tryggja það að strákarnir haldi stigasöfnun sinni áfram!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is