Haukar - KA í beinni í dag

Handbolti

KA sækir stórlið Hauka heim í lokaleik liðanna fyrir jólafrí í Olís deild karla í handboltanum. Leikurinn hefst klukkan 16:30 og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á Ásvelli og styðja okkar lið til sigurs. Fyrir ykkur sem ekki komist í Hafnarfjörðinn þá verður Haukar-TV með leikinn í beinni og því um að gera að fylgjast vel með gangi mála.

KA vann eins og frægt er orðið stórsigur 31-20 í fyrri leik liðanna í KA-Heimilinu í vetur. Það er klárt að sá leikur kveikti allverulega í liði Hauka því í kjölfarið hefur liðið sótt 16 af 20 mögulegum stigum og Haukarnir eru í harðri baráttu um Deildarmeistaratitilinn.

KA liðið vann hinsvegar frábæran sigur á nágrönnum sínum í Akureyri um síðustu helgi og geta með sigri í dag komið sér í ansi góða stöðu fyrir baráttuna sem fylgir eftir áramót. Það er því ansi mikið undir fyrir bæði lið og verður spennandi að fylgjast með gangi mála í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is