KA hyllti þá Dóra, Heimi og Sverre

Handbolti
KA hyllti þá Dóra, Heimi og Sverre
Þrír frábærir KA kappar

Fyrir leik KA og FH um helgina voru þrír af bestu sonum handboltans í KA hylltir. Heimir Örn Árnason og Sverre Andreas Jakobsson léku lokaleik sinn sem leikmenn KA og þá var Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH sæmdur silfurmerki KA.

Haddur Júlíus Stefánsson formaður handknattleiksdeildar veitti þeim Heimi og Sverre smá þakklætisvott auk þess sem þeir voru vel hylltir af stuðningsmönnum sem fjölmenntu í KA-Heimilið.

Heimir Örn Árnason hóf meistaraflokksferil sinn tímabilið 1995-1996 með sterku liði KA en hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með yngri flokkum KA. Hann varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með meistaraflokki, einu sinni Bikarmeistari og þrisvar Deildarmeistari. Það væri hægt að halda langa tölu um frábæran feril Heimis, en þá færi leikurinn aldrei í gang fyrr en að ganga níu. Heimir spilaði á sínum glæsta ferli 23 A-landsleiki og meðal annars á Evrópumótinu 2006. Hann vann til fjölda verðlauna með öðrum félögum og einstaklingsverðlaunin eru ótalmörg.

Heimir hefur á efri árum komið að þjálfun, bæði yngri flokka og meistaraflokka með góðum árangri. Það verður mikil eftirsjá af Heimi af handboltavellinum, þar sem leikgleði og barátta hafa einkennt hans stíl frá því að elstu menn muna. Við vonum svo sannarlega að við fáum áfram að njóta þjónustu hans utan vallar.

Sverre Andreas Jakobsson varð bikarmeistari með KA árin 1995 og 1996, Íslandsmeistari 1997 og Deildarmeistari 1996 og 1998. Þess utan þjálfaði Sverre yngri flokka KA á sínum yngri árum. Sverre er KA-maður í húð og hár. Hann lék 182 landsleiki fyrir Íslands hönd og náði þeim frábæra árangri að fá silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á EM í Austurríki árið 2010.

Sverre sneri aftur til Akureyrar eftir frábæra tíma í Þýskalandi og hóf að spila auk þess að stýra sameiginlegu liði Akureyrar áður en hann kom inn í þjálfarateymi KA nú um áramótin. KA-menn eru gríðarlega stoltir af afrekum Sverre og þakka honum fyrir frábæra þjónustu innan vallar með von um áframhaldandi þjónustu utan vallar um ókomin ár hjá félaginu.

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, afhenti svo Halldóri Jóhanni silfurmerki KA.

Halldór Jóhann Sigfússon lék sinn fyrsta meistaraflokks leik í handbolta rétt tæplega 16 ára árið 1994. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með yngri flokkum KA og tvisvar sinnum Íslandsmeistari með meistaraflokki, tvisvar Bikarmeistari auk þess að verða Deildarmeistari þrívegis. Þá varð Dóri markakóngur Íslandsmótsins 2004-2005.

Segja má að KA-Heimilið hafi verið hans annað heimili því ef hann var ekki á æfingu eða aukaæfingu var hann að hjálpa starfsfólki KA-Heimilisins við að halda uppi röð og reglu. Halldór hóf þjálfaraferil sinn hjá KA, þegar hann þjálfaði yngri flokka við góðan orðstír og er það vonandi sá grunnur sem hann býr að í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is