KA Íslandsmeistari í 4. flokki eldri

Handbolti
KA Íslandsmeistari í 4. flokki eldri
Stórkostlegur árangur hjá mögnuðu liði!

KA varð í dag Íslandsmeistari á eldra ári 4. flokks karla í handbolta eftir glæsilegan sigur á Aftureldingu í úrslitaleik. Strákarnir á yngra ári voru einnig í úrslitum en þurftu að sætta sig við silfur eftir tap gegn ÍR.

Strákarnir á eldra árinu hafa ekki tapað leik undanfarin ár og voru fyrir leikinn Bikar- og Deildarmeistarar auk þess að vera ríkjandi Íslandsmeistarar frá síðustu leiktíð. Úrslitahelgi yngriflokka fór fram að Varmá í Mosfellsbæ og var Afturelding því á heimavelli í úrslitaleiknum. Mosfellingar hófu leikinn af krafti og komust snemma í 4-1 forystu.

En það býr frábær karakter í KA liðinu og strákarnir voru ekki lengi að svara fyrir sig og náðu í kjölfarið frumkvæðinu í leiknum. Hálfleikstölur voru 9-12 fyrir KA og strákarnir komnir með gott tak á leiknum.

Það var svo aldrei spurning í þeim síðari hvoru meginn sigurinn myndi enda, KA náði fljótlega sex marka forystu sem hélst út leikinn. Mosfellingar náðu að laga stöðuna undir lokin en strákarnir héldu haus og unnu 21-24 sigur og tryggðu sér þar með Íslandsmeistaratitilinn. Eldra ár KA er þar með þrefaldir meistarar í vetur og unnu það ótrúlega afrek að tapa ekki leik alla sína göngu í 4. flokki.

Hugi Elmarsson var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins en Hugi átti stórleik í vinstra horninu og gerði alls 7 mörk í leiknum. Strákarnir áttu þó allir frábæran leik og verður ansi gaman að fylgjast með þeim í náinni framtíð.

Yngra ár KA mætti ÍR í úrslitaleiknum en strákarnir okkar höfðu endaði í 2. sæti bæði í bikarnum sem og í deildinni og voru heldur betur klárir í að sækja gull en þeir slógu einmitt Bikarmeistara Hauka út í undanúrslitunum.

En ÍR-ingar áttu virkilega góðan leik og höfðu yfirhöndina 14-10 í hálfleik og þrátt fyrir hetjulega baráttu KA liðsins tókst aldrei að brúa það bil í þeim síðari. Þegar úrslitin voru ráðin gengu ÍR-ingar á lagið og unnu að lokum 26-19 sigur.

Vissulega svekkjandi að ná ekki gullinu en strákarnir geta engu að síður verið ákaflega stoltir af sinni framgöngu í vetur. Þeir enda í öðru sæti í öllum keppnum vetrarins og munu klárlega búa að þeirri reynslu á næsta tímabili.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is