KA sækir Gróttu heim í mikilvægum leik

Handbolti
KA sækir Gróttu heim í mikilvægum leik
Jón Heiðar vill sigur á sínu gamla liði

Olís deild karla í handboltanum er farin af stað og það er enginn skortur á mikilvægum leikjum hjá KA liðinu. Um síðustu helgi vann liðið gríðarlega mikilvægan og góðan sigur á liði Fram sem kom KA liðinu 5 stigum frá fallsæti. Í dag klukkan 17:00 sækir liðið svo botnlið Gróttu heim en fyrir leikinn munar 6 stigum á liðunum og því ansi mikilvæg stig í húfi fyrir bæði lið.

Með sigri geta strákarnir okkar í raun kvatt fallbaráttuna, í bili að minnsta kosti, en með tapi verður aftur stutt niður í fallpakkann. Liðin mættust í svakalegum leik fyrr í vetur í KA-Heimilinu þar sem allt útlit var fyrir góðan sigur KA þar sem liðið leiddi 16-11 í síðari hálfleik. Gestirnir gáfust hinsvegar ekki upp og þeir sneru leiknum við og unnu á endanum 21-22 sigur.

Strákarnir gerðu mjög vel í að klára Framleikinn með sex marka sigri á lokamínútunum sem þýðir að KA hefur betur í innbyrðisviðureignum gegn Fram. Aðeins þarf tveggja marka sigur á Gróttu til að tryggja það einnig en það er ljóst að leikurinn í dag verður ákaflega erfiður enda heimamenn með bakið upp við vegg á botni deildarinnar.

Leikurinn hefst eins og fyrr segir klukkan 17:00 á Seltjarnarnesi og hvetjum við alla sem geta til að mæta á leikinn og styðja strákana til sigurs. Fyrir ykkur sem ekki komist þá verður leikurinn sýndur beint á Grótta-TV og má nálgast útsendinguna hér fyrir neðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is