KA U vann grannaslaginn

Handbolti
KA U vann grannaslaginn
Sigurgleðin var allsráðandi að leik loknum!

Það var ansi mikið undir er ungmennalið KA tók á móti nágrönnum sínum í ungmennaliði Akureyrar. Ekki nóg með að montrétturinn í bænum væri í húfi þá eru bæði lið í harðri toppbaráttu í 2. deildinni og ætla sér sæti í Grill-66 deildinni á næsta ári. KA var dæmdur 10-0 sigur í fyrri leik liðanna vegna ólöglegs leikmanns hjá Akureyri og bæði lið áköf í að sýna hvort liðið væri betra í 60 mínútna leik.

Það voru gestirnir í Akureyri sem hófu leikinn betur og er fyrri hálfleikur var hálfnaður leiddu þeir 4-7 og KA liðið búið að vera í vandræðum með sóknarleikinn. En þá kom magnaður kafli hjá strákunum sem gerðu tólf mörk gegn þremur hjá Akureyri og hálfleikstölur því 16-10.

Á þessum kafla náði KA liðið upp feikiöflugri vörn auk þess sem Svavar Ingi tók nokkra góða bolta í markinu. Sóknarlega fór boltinn að ganga betur og sóknarleikurinn fjölbreyttari sem skilaði sér í betri færum og þar af leiðandi auðveldara að koma boltanum framhjá Hauki í Akureyrarmarkinu sem hafði byrjað leikinn af krafti.

Tímalína fyrri hálfleiks

Staðan var því vænleg í upphafi seinni hálfleiks en heldur datt takturinn úr sóknarleik liðsins og gestirnir refsuðu með nokkrum hröðum upphlaupum. Hægt og bítandi minnkaði forskot okkar manna og þegar ellefu mínútur lifðu leiks var munurinn einungis eitt mark, 22-21.

Stefán Árnason, þjálfari tók þá leikhlé sem skerpti á leik KA liðsins sem tók aftur völdin á vellinum. Að lokum vannst góður sex marka sigur, 30-24, sem gefur liðinu ansi mikilvæg tvö stig í baráttunni um sæti í Grill-66 deildinni á næsta ári.

Tímalína seinni hálfleiks

Einar Logi Friðjónsson fór fyrir liðinu í dag en þessi reynslumikli kappi gerði alls 14 mörk í leiknum, þar af 4 úr vítaköstum. Næstir komu þeir Sigþór Gunnar Jónsson, Jóhann Einarsson og Einar Birgir Stefánsson með 4 mörk hver, Heimir Pálsson gerði 2 og þeir Þorri Starrason og Jón Heiðar Sigurðsson 1 mark hvor. Svavar Ingi Sigmundsson stóð í markinu og varði alls 12 skot.

Einar Logi skorar eitt af 14 mörkum sínum í leiknum
Smelltu á myndina til að sjá fleiri myndir Hannesar Péturssonar frá leiknum.

Strákarnir eru á toppi 2. deildar og eiga aðeins þrjá leiki eftir. Næsti leikur er annar toppslagur, gegn Fjölni U en þar þurfa strákarnir á sigri að halda en Fjölnismenn hafa tapað færri stigum það sem af er tímabilsins og geta farið uppfyrir okkar menn. Sá leikur fer fram í KA-Heimilinu, sunnudaginn 3. febrúar, klukkan 14:00.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is