Magnaður fyrsti sigur KA/Þórs á ÍBV

Handbolti
Magnaður fyrsti sigur KA/Þórs á ÍBV
Sigrinum var eðlilega vel fagnað! (mynd: EBF)

KA/Þór fékk ÍBV í heimsókn í dag en leikurinn var liður í 6. umferð Olís deildar kvenna. KA/Þór fór vel af stað og leiddi í upphafi 3-1. Í kjölfarið efldust Eyjastúlkur, jöfnuðu leikinn og náðu í kjölfarið tveggja marka forystu 3-5. ÍBV hafði nokkuð góð tök á leiknum í framhaldinu og héldu þessu forskoti út fyrri hálfleikinn, staðan 9-11 í leikhléi.

Þær héld síðan þriggja marka forskoti fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks, staðan orðin 12-15 og virtust KA/Þór stelpurnar ekki alveg klárar í slaginn. En þá varð heldur betur breyting á, með frábærum leik komu fimm mörk í röð og KA/Þór skyndilega komið tveim mörkum yfir, 17-15 og tíu mínútur eftir af leiknum.

Lokakaflinn var æsispennandi, ÍBV náði nokkrum sinnum að minnka muninn í eitt mark en KA/Þór svaraði jafnharðan með marki. Mathea varði eins og berserkur, dauðafæri og vítakast. Hulda Bryndís Tryggvadóttir, sem var gríðarlega öflug á þessum lokakafla stal boltanum í lokasókn ÍBV en leiktíminn rann út rétt áður en hún sendi boltann í netið þannig að tveggja marka sigur, 20-18 varð niðurstaða leiksins.

Sannarlega dýrmætur sigur í höfn og reyndar sá fyrsti á ÍBV í sögu liðanna þannig að hann var enn sætari fyrir vikið.

Mörk KA/Þór: Martha Hermannsdóttir 6 (3 úr vítum), Ásdís Guðmundsdóttir 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Ásdís Sigurðardóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 1 og Rakel Sara Elvarsdóttir 1 mark.
Matea Lonac varði 11 skot í markinu, þar af 1 vítakast.

Í leikslok var Hulda Bryndís Tryggvadóttir valinn maður leiksins.
Næstu tveir leikir verða útileikir, fyrst gegn Aftureldingu og síðan gegn Fram.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is