Martha í umspilið með landsliðinu

Handbolti
Martha í umspilið með landsliðinu
Martha og Jenný sáttar með árangurinn (mynd: HSÍ)

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta gerði sér lítið fyrir í dag og tryggði sér sæti í umspili um laust sæti á Heimsmeistaramótinu á næsta ári. Liðið lék í fjögurra liða riðli í Makedóníu en andstæðingar Íslands voru Tyrkland, Makedónía og Aserbaídsjan.

Aðeins efsta lið riðilsins var öruggt um sæti í umspilinu og því ljóst að hver einasti leikur yrði gríðarlega mikilvægur. Martha Hermannsdóttir leikmaður KA/Þór kom inn í hópinn í vikunni og var ekki lengi að blanda sér inn í hópinn því hún gerði 2 mörk í fyrsta leik keppninnar er Ísland vann frábæran 36-23 sigur á Tyrkjum.

Næsti leikur var gegn heimakonum í Makedóníu og eftir jafnar upphafsmínútur tókst heimakonum að stinga af og unnu á endanum sannfærandi 21-29 sigur og Íslenska liðið komið í erfiða stöðu.

Það var þó ljóst fyrir lokaleikinn að enn væri möguleiki á sæti í næstu umferð þar sem það lið í 2. sæti með bestan árangur í riðlunum fjórum færi einnig áfram. Til að ná því þyrfti Ísland að vinna 27 marka sigur á Aserbaídsjan í lokaleiknum.

Það voru væntanlega ekki margir sem reiknuðu með að það væri gerlegt en stelpurnar gerðu vel í að sýna þolinmæði og forskotið jókst hægt og bítandi. Hálfleikstölur voru 28-9 og möguleikinn enn til staðar.

Á endanum vannst 49-18 sigur og samtals 31 marks sigur og Ísland er því komið áfram í næstu umferð. Það þarf gríðarlegan karakter að klára svona verkefni og á liðið allt það hrós skilið fyrir það. Gríðarlega gaman var að sjá Mörthu okkar fá tækifærið sem hún hefði átt að fá fyrir löngu síðan en enn ein skrautfjöðurin í hennar feril að afreka þetta með landsliðinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is