Myndaveisla frá hörkuleik Þórs og KA U

Handbolti
Myndaveisla frá hörkuleik Þórs og KA U
Hart var barist í Höllinni (mynd: Þórir Tryggva)

Ungmennalið KA sótti Þórsara heim í Höllina í Grill 66 deild karla í gærkvöldi í alvöru bæjarslag. Þórsarar sem ætla sér uppúr deildinni voru taplausir fyrir leikinn en á sama tíma hafði hið unga KA lið sýnt flotta takta það sem af var vetri og var því búist við hörkuleik.

Þórsarar byrjuðu betur og komust snemma í 4-1 en þá hrukku strákarnir okkar í gang og gerðu næstu fimm mörk leiksins. Vörnin var öflug og þar fyrir aftan var Svavar Ingi Sigmundsson í ham í markinu. Þetta nýttu strákarnir sér vel og refsuðu með hröðum mörkum.

Jafnvægi var í leiknum eftir þetta og munaði iðulega einu til tveimur mörkum á liðunum. Þórsarar voru svo sterkari undir lok fyrri hálfleiks og leiddu 17-14 er liðin gengu til búningsherbergja.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Þórsarar gerðu fyrsta mark síðari hálfleiks og héldu einhverjir að þeir myndu ganga frá leiknum í síðari hálfleiknum. En karakterinn sem býr í okkar magnaða liði er mikill og strákarnir jöfnuðu í 18-18 með næstu fjórum mörkum leiksins.

En aftur tókst heimamönnum að slíta sig frá KA liðinu og er um tíu mínútur lifðu leiks var staðan orðin 25-20 og útlitið ekkert sérstaklega gott. En með frábærum stuðning fjölmargra KA manna í stúkunni héldu strákarnir áfram að þjarma að Þórsurunum og komu sér aftur inn í leikinn.

Strákarnir minnkuðu muninn í 28-27 er tæpar fjórar mínútur voru eftir og úr varð spennuþrunginn lokakafli. Aftur minnkuðu strákarnir muninn í eitt, 29-28, og aðeins tvær mínútur til leiksloka. En nær komust strákarnir ekki og lokatölur urðu 30-28.

Hetjuleg barátta hjá strákunum og geta þeir verið ansi sáttir með frammistöðuna gegn aðalliði Þórs þó vissulega hafi þeir verið hundsvekktir með að tapa leiknum. Aðeins herslumuninn vantaði til að fá eitthvað útúr leiknum og getum við verið ansi stolt af því að ungmennaliðið okkar standi jafn vel að vígi og raun ber vitni.

Einar Logi Friðjónsson var markahæstur í okkar liði með 7 mörk, Þorri Starrason og Arnór Ísak Haddsson gerðu 5 mörk, Jóhann Einarsson 4, Sigþór Gunnar Jónsson 3, Sigþór Árni Heimisson 3 og Einar Birgir Stefánsson gerði 1 mark. Svavar Ingi Sigmundsson stóð sig frábærlega í markinu og varði ófáa boltana.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is