Rakel Sara og Ásdís í B-landsliðinu

Handbolti
Rakel Sara og Ásdís í B-landsliðinu
Frábært tækifæri hjá Rakel og Ásdísi

Rakel Sara Elvarsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir standa nú í ströngu með B-landsliði Íslands í handbolta. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari valdi 21 leikmann í B-landsliðið til æfinga þessa dagana og fá leikmenn þar frábært tækifæri á að sýna sig og sanna fyrir Arnari.

Í tilkynningu HSÍ segir Arnar að hann vilji kynnast fleiri leikmönnum og þannig víkka sjóndeildarhringinn áður en næsti hópur hjá A-landsliðinu sé valinn. Það sé töluverður tími í næsta verkefni og því réttur tími til að gefa fleirum tækifæri.

Ásdís sem er 22 ára gömul var valin besti leikmaður tímabilsins hjá KA/Þór en hún gerði alls 86 mörk í vetur í 20 leikjum. Hún stóð heldur betur fyrir sínu á línunni og hefur heldur betur stimplað sig inn í efstu deild síðustu tímabil.

Rakel Sara sem er aðeins 17 ára gömul er þrátt fyrir það algjör lykilleikmaður í liði KA/Þórs og var að klára sitt annað tímabil í meistaraflokki. Hún gerði 61 mark í hægra horninu í vetur auk þess sem hún hefur farið á kostum með unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár.

Við óskum stelpunum til hamingju með þennan mikla heiður og óskum þeim góðs gengis á æfingunum sem nú standa yfir.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is