Síðasti leikur KA/Þór fyrir jól er á morgun

Handbolti
Síðasti leikur KA/Þór fyrir jól er á morgun
Tvö mikilvæg stig í húfi

KA/Þór tekur á móti Haukum í lokaumferð Olís deildar kvenna í handbolta fyrir jól á morgun, laugardag, klukkan 16:00. Fyrir leikinn eru stelpurnar í 4.-5. sæti deildarinnar ásamt HK með 10 stig en Haukar eru sæti neðar með 7 stig og því ansi mikilvæg stig í húfi fyrir bæði lið.

KA/Þór vann fyrri leik liðanna á Ásvöllum í vetur 23-25 þar sem að stelpurnar leiddu með sex mörkum í hálfleik. Haukarnir komu sér hinsvegar inn í leikinn í seinni hálfleik en stelpurnar gerðu ákaflega vel í að halda haus og klára leikinn með sigri.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leikinn á morgun, stelpurnar hafa verið frábærar það sem af er vetri og ljóst að leikurinn á morgun mun skipta miklu máli þegar deildin klárast í vor. Liðið er staðráðið í að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni en eftir leik morgundagsins verða 10 umferðir eftir í deildinni.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinni á KA-TV og er hægt að nálgast útsendinguna hér fyrir neðan, áfram KA/Þór!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is