Sigþór Árni aðstoðar Gunnar með KA/Þór

Handbolti

Sigþór Árni Heimisson verður aðstoðarþjálfari með Gunnari Líndal Sigurðssyni hjá KA/Þór í vetur. Gunnar Líndal tók við þjálfun liðsins nú í sumar og er nú ljóst að Sigþór Árni verður honum til aðstoðar. Þeir taka við liðinu af þeim Jónatan Magnússyni og Þorvaldi Þorvaldssyni sem höfðu stýrt liðinu undanfarin þrjú ár.

Sigþór Árni er 26 ára gamall og hefur undanfarin ár leikið með meistaraflokksliði KA og þar áður sameiginlegu liði Akureyrar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sigþór þjálfað yngriflokka hjá KA í nokkur ár og er því kominn með þó nokkra reynslu í þjálfun.

KA/Þór endaði í 5. sæti í Olís deild kvenna á síðustu leiktíð og rétt missti af sæti í úrslitakeppninni en liðið var nýliði í deildinni eftir að hafa unnið sigur í Grill 66 deildinni árið á undan. Það er klárt mál að liðið ætlar sér áfram stóra hluti og verður gaman að fylgjast með framvindu liðsins í vetur.

Liðið lék á dögunum á Opna Norðlenska mótinu þar sem liðið vann stórsigur á HK en tapaði naumlega gegn Aftureldingu og Stjörnunni. Fyrsti leikur KA/Þórs í vetur er heimaleikur gegn Fram þann 14. september næstkomandi og minnum við á að sala ársmiða er í fullum gangi í KA-Heimilinu sem og hjá leikmönnum liðsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is