Slæmur endakafli kostaði KA/Þór tap

Handbolti
Slæmur endakafli kostaði KA/Þór tap
Svekkjandi tap staðreynd (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór sótti ÍBV heim í Olís deild kvenna í handbolta í dag en leikurinn var liður í næstsíðustu umferð deildarinnar. KA/Þór fer hvorki ofar né neðar en 5. sætið og hafði því að litlu að keppa en heimakonur eru í harðri baráttu um 3. sætið og þurfti á sigri að halda.

Stelpurnar hófu leikinn af krafti og þá sérstaklega varnarlega. Eftir um ellefu mínútna leik var staðan 3-7 fyrir KA/Þór og spilamennskan ansi góð hvert sem litið var. En ÍBV er með hörkulið og það leið ekki á löngu uns þær höfðu jafnað metin í 8-8. Eftir það var jafnt á öllum tölum uns flautað var til hálfleiks þar sem staðan var 13-13 og leikurinn í járnum.

Aftur byrjuðu stelpurnar okkar betur og þær leiddu 14-16 á upphafsmínútum síðari hálfleiksins en næstu fimm mörk vöru heimastúlkna, staðan skyndilega orðin 19-16 og um 18 mínútur eftir af leiknum.

Stelpurnar höfðu ekki sagt sitt síðasta og jöfnuðu í 20-20 og sýndu eins og svo oft áður í vetur að þær gefast aldrei upp. En hvort að of mikil orka hafði farið í að koma sér aftur inn í leikinn skal ég ekki segja til um en næstu mínútur voru í raun algjört þrot og ÍBV gekk á lagið. Heimastúlkur breyttu stöðunni yfir í 27-20 og unnu að lokum 27-22 sigur.

Hrikalega svekkjandi niðurstaða eftir virkilega flottan leik. Þetta er í annað skiptið í vetur þar sem stelpurnar eru í góðri stöðu en detta úr takt þegar mest á reynir og tapa.

Við skulum þó ekki gleyma því að ÍBV er eitt best mannaða lið landsins og stelpurnar okkar hafa staðið sig algjörlega frábærlega í vetur, eru búnar að stimpla sig inn sem fimmta besta lið landsins og það er aldrei að vita hvað gerist næsta vetur.

Martha Hermannsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með 6 mörk (þar af 5 úr vítum), Sólveig Lára Kristjánsdóttir gerði 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 og Rakel Sara Elvarsdóttir 1 mark

Olgica Andrijasevic varði 11 skot í markinu og Selma Sigurðardóttir Malmquist varði 1 skot en báðar voru þær með 33% markvörslu.

Næsti leikur er strax á þriðjudaginn þegar stelpurnar taka á móti Stjörnunni í síðasta leik tímabilsins. Leikurinn fer fram í KA-Heimilinu og hefst klukkan 19:30. Það er um að gera að mæta og hylla okkar frábæra lið sem hefur staðið sig gríðarlega vel þrátt fyrir hrakspár fyrir tímabilið um að liðið myndi falla úr deildinni í neðsta sætinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is