Stórt tap KA/Þórs að Hlíðarenda

Handbolti
Stórt tap KA/Þórs að Hlíðarenda
Stórt tap staðreynd í dag (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór lék sinn fyrsta leik í Olís deild kvenna í dag eftir jólafrí er liðið sótti Íslands-, Bikar- og Deildarmeistara Vals heim. Það mátti reikna með erfiðum leik enda lið Vals ógnarsterkt og það varð svo sannarlega raunin.

Heimakonur gerðu fyrstu tvö mörk leiksins en KA/Þór minnkaði muninn í 2-1 og aftur í 3-2 en þá skildu leiðir. Valsliðið gerðu þá fjögur mörk í röð og í kjölfarið jókst munurinn jafnt og þétt. Staðan var orðin 18-7 þegar flautað var til hálfleiks og ljóst að leikurinn væri í raun tapaður.

Bæði lið nýttu tækifærið og fengu því flestir ef ekki allir leikmenn liðanna að spreita sig. Telma Lísa Elmarsdóttir sýndi flotta takta en hún gerði 3 mörk og nýtti öll sín skot. Einnig var gaman að sjá innkomu Önnu Mary Jónsdóttur og klárt að þarna sýndu stelpurnar að þær eru klárar í stærra hlutverk hjá liðinu.

Lokatölur urðu 32-16 og sigur Vals aldrei í hættu. Það þarf allt að ganga upp hjá stelpunum til að eiga möguleika gegn þessu öfluga Valsliði og því miður var skotnýting liðsins það slök að því fór sem fór en stelpurnar nýttu aðeins 37,5% skota sinna.

Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst með 4 mörk, Telma Lísa Elmarsdóttir 3, Martina Corkovic 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Aldís Ásta Heimisdóttir 1, Kolbrún Gígja Einarsdóttir 1, Martha Hermannsdóttir 1, Ásdís Sigurðardóttir 1 og Anna Mary Jónsdóttir 1 mark. Í markinu varði Matea Lonac 9 skot og Ólöf Maren Bjarnadóttir 1 skot.

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn ÍBV næsta laugardag. Eftir leiki dagsins eru stelpurnar dottnar niður í 5.-6. sætið með 10 stig en ÍBV er þar fyrir neðan með 8 stig. Það er því ansi mikilvægur leikur sem bíður liðsins næstu helgi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is