Svavar Ingi framlengir um tvö ár

Handbolti
Svavar Ingi framlengir um tvö ár
Frábært að halda þessum öfluga kappa í KA!

Svavar Ingi Sigmundsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild KA um tvö ár. Þessi ungi og öflugi markvörður verður því áfram í okkar herbúðum í baráttunni í Olís deildinni og er gríðarleg ánægja með þessa niðurstöðu en Svavar verður tvítugur síðar á árinu.

Svavar kom af krafti inn í meistaraflokk KA og fékk strax viðurnefnið Svabbi kóngur er hann varði vítakast á lokasekúndunum í jafnri stöðu í fyrsta leik KA eftir að slitnaði uppúr Akureyri Handboltafélagi tímabilið 2017-2018. Í kjölfarið skoraði Dagur Gautason sigurmark leiksins og fagnaði liðið því sætum sigri.

Í vetur hefur Svavar unnið sér inn stærra og stærra hlutverk í KA liðinu auk þess að vera aðalmarkvörður ungmennaliðs KA sem leikur í Grill66 deildinni. Þá hefur hann verið fastamaður í unglingalandsliði Íslands. Auk þess hefur Svavar séð um markmannsþjálfun yngriflokka hjá KA og er ákaflega vel liðinn í félaginu.

Það er ljóst að framtíðin er björt hjá þessum öfluga markmanni og verður áfram gaman að fylgjast með honum í eldlínunni með KA á næstu árum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is