Tap með minnsta mun í hörkuleik gegn Þór

Handbolti
Tap með minnsta mun í hörkuleik gegn Þór
Mjög svekkjandi tap staðreynd eftir flottan leik

Það var heldur betur hart barist í KA-Heimilinu í kvöld þegar KA tók á móti Þór í 3. flokki karla í handboltanum. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leik og fyrri leikur þeirra í vetur hafði endað með jafntefli og mátti því búast við svakalegum leik sem úr varð.

KA liðið byrjaði betur og náði snemma fjögurra marka forystu. Þá hófu Þórsarar að taka Arnór Ísak Haddsson úr umferð og þeir komu sér betur inn í leikinn í kjölfarið og úr varð gríðarlega jafn og spennandi fyrri hálfleikur. Staðan var jöfn 15-15 er skammt var til hálfleiks en KA liðið skoraði síðustu tvö mörkin og leiddi því 17-15 í hléinu.

Strákarnir héldu forskotinu í 2-3 mörkum í upphafi síðari hálfleiks en gerðu sig svo seka um að fá á sig ódýra brottrekstra sem gestirnir nýttu sér og jöfnuðu leikinn í 23-23. En strákarnir héldu haus og héldu áfram frumkvæðinu í leiknum. Stuttu síðar fóru Þórsarar að taka tvo leikmenn KA úr umferð en það riðlaði sem betur fer ekki leik KA liðsins að ráði.

KA leiddi 31-28 er um sex mínútur lifðu leiks en næstu þrjú mörk voru gestanna og staðan skyndilega orðin jöfn 31-31. Aftur var jafnt í stöðunni 32-32 og gríðarleg spenna í húsinu. Mætingin sem og stemningin á leiknum er eitthvað sem sést alltof sjaldan á leikjum í efstu deild hjá sumum liðum.

Það fór svo á endanum að þetta féll með gestunum og unnu þeir 33-34 sigur. Gríðarlega svekkjandi niðurstaða enda leiddi KA liðið nær allan leikinn en svona er boltinn stundum. Eitt er allavega víst að leikir sem þessir gefa mönnum ansi mikla reynslu og verður gaman að fylgjast með strákunum út veturinn enda búnir að stíga mikið upp.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is