Tveir góðir sigrar hjá 4. fl. kvenna um helgina

Handbolti
Tveir góðir sigrar hjá 4. fl. kvenna um helgina
Stelpurnar brugðu á leik á öskudeginum

4. flokkur kvenna í handbolta spilaði loksins, eftir tæplega árs bið, leik á Íslandsmótinu í handbolta. 4. flokkurinn er nokkuð fjölmennur í ár og tefla þær því fram þremur liðum. Um helgina átti KA/Þór 2 leik gegn Fjölni/Fylki 1 og sama dag spilaði svo KA/Þór 3 gegn Fjölni/Fylki 2.

KA/Þór 2 byrjaði leikinn mun betur en gestirnir og náði fljótt undirtökunum í leiknum. Varnarlega voru þær nokkuð sterkar, en vantaði alltaf þetta litla skref til að loka alveg á gestina. Sem betur fer var markmaður heimastúlkna, Telma Þórhallsdóttir, búin að taka lýsið sitt í morgun og varði hvert skotið á fætur öðru. Þannig að þegar vörnin opnaðist, var bara hálfur sigur unninn hjá gestunum.

Sóknarleikurinn var nokkuð stirður en með smá þjösni náðu þær að opna vörn gestanna en græddu þó mest á því að keyra hratt upp ítrekað og ná inn auðveldum mörkum þannig. Smám saman fór vörnin að þéttast og sóknin að smyrjast. Lokatölur voru 25-15 KA/Þór 2 í vil.

Strax á eftir spiluðu stelpurnar í KA/Þór 3 gegn Fjölni/Fylki 2. Það var heldur óþægileg staða sem blasti við liði KA/Þór 3 fyrir leik en báðir markmenn liðsins voru fjarverandi. Önnur landfræðilega heft, stödd í Reykjavík af öllum stöðum og hin tók upp á því að veikjast kvöldið fyrir leik (hefur gleymt lýsinu sínu um morguninn). Hulda línumaður dró stutta stráið og tók það á sig að fara í rammann. Gestirnir byrjuðu mun betur og komust í 4-0 og útlit fyrir erfiðan leik hjá heimastúlkum. Sérstaklega þar sem línumaðurinn í markinu virtist hafa mjög takmarkaðan áhuga á að verða fyrir boltanum og forðaði sér í hvert skipti sem bolta var kastað að markinu.

Við þetta mótlæti þéttist vörnin til muna og áhorfendur fóru að vorkenna gestunum, enda gestrisni heimastúlkna ákaflega lítil í hvert skipti sem einhver af gestunum vogaði sér inn fyrir punktalínu. Sóknarlega var eilítið basl á heimastúlkum en þeim óx þó ásmegin þegar leið á leikinn. Þó það hafi vissulega ekki hjálpað að markvörður gestanna gerði í því að vera fyrir heiðarlegum tilraunum KA/Þórs 3 að koma boltanum í netið.

Með ótrúlegri baráttu heimastúlkna náðu þær að minnka muninn niður í 3 mörk rétt fyrir hálfleik, staðan því 8-11 fyrir gestina, sem var eilítið undarlegt í ljósi þess að staðan í markvörslu var 1-11 fyrir gestunum.

Í síðari hálfleik var líkt og Hulda línumaður hefði náð sér í lýsisflöskuna í hléinu og fór hún að verja hvert skotið á fætur öðru. Það er óhætt að fullyrða að hún hafi hreinlega lokað markinu á stórum kafla síðari hálfleiks. Vörnin hélt áfram að vera virkilega þétt og sóknarleikur heimastúlkna lagaðist jafnt og þétt. KA/Þór nær að jafna þegar tvær mínútur eru eftir í 17-17 og Hulda línumaður ver síðan víti í kjölfarið.

KA/Þór fer upp og Hrafnhildur Sigurbjörnsdóttir skorar sitt fyrsta mark á ferlinum (hún byrjaði að æfa handbolta í vetur sumsé og þetta var hennar fyrsti leikur) og kemur KA/Þór í 18-17. Að sjálfsögðu ver Hulda næsta skot á eftir og KA/Þór með boltann. Gestirnir fara í maður á mann til að freista þess að stela boltanum fljótt aftur en 5. flokks meistararnir, Kristín og Kristín létu ekki bjóða sér slíka veislu tvisvar og tryggðu heimastúlkum afskaplega sætan tveggja marka sigur, 19-17.

Það var alvöru karakter sigur sem þær buðu upp á í þessum leik og eiga þær mikið hrós skilið. Hulda línumaður fær mikið hrós fyrir frábæran leik í stöðu sem hún er ekki vön en hún leysti þá stöðu frábærlega.

Heilt yfir voru báðir leikirnir virkilega vel spilaðir, miðað við hversu ryðgaðar þær voru. Vörnin sýndi flotta takta í báðum liðum og sóknin smurðist hægt og bítandi. Það mun taka þær nokkra leiki að ná almennilega taktinum, en byrjunin lofar góðu.

Stefán Guðnason, þjálfari 4. flokks KA/Þórs


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is