U18 fékk silfur á Sparkassen cup - 5 frá KA

Handbolti
U18 fékk silfur á Sparkassen cup - 5 frá KA
Magnaðir fulltrúar KA!

KA átti alls fimm fulltrúa í U18 ára landsliði Íslands í handbolta sem keppti á Sparkassen Cup í Þýskalandi undanfarna daga en mótinu lauk nú í kvöld. Þetta eru þeir Dagur Árni Heimisson, Hugi Elmarsson, Jens Bragi Bergþórsson, Magnús Dagur Jónatansson og Óskar Þórarinsson.

Íslenska liðið hóf mótið á öruggum 21-31 sigri á úrvalsliði Saar héraðsins. Íslenska liðið náði strax frumkvæðinu og leiddi 10-13 í hálfleik. Sigurinn var svo aldrei í hættu í síðari hálfleik og vannst að lokum 10 marka sigur. Dagur Árni var markahæstur í liði Íslands með 6 mörk, Hugi gerði 3 mörk rétt eins og Jens Bragi og Magnús Dagur gerði tvö mörk. Óskar varði 5 skot í markinu.

Í öðrum leik sínum mættu strákarnir liði Þýskalands, eftir jafnar upphafsmínútur kom slakur kafli og heimamenn leiddu 13-8 í hálfleik. Ekki batnaði staðan í þeim síðari og má þar helst kenna slakri færanýtingu um og tapaðist leikurinn 26-18. Jens Bragi gerði 5 mörk í leiknum, Dagur Árni gerði 2 mörk og Hugi eitt. Óskar varði 5 skot í markinu.

Strákarnir stigu hinsvegar allhressilega upp í lokaleik sínum í riðlinum þar sem þeir rótburstuðu lið Belga. Hálfleikstölur voru 17-5 Íslandi ívil og vannst að lokum 33-14 stórsigur. Magnús Dagur gerði eitt mark í leiknum og Óskar varði 7 skot í markinu. Með sigrinum tryggðu strákarnir sér sæti í undanúrslitum mótsins.

Þar mættu þeir liði Slóvena sem höfðu unnið hinn riðilinn. Slóvenar leiddu 12-15 í hálfleik en síðari hálfleikur varð gríðarlega spennandi og fór að lokum svo að liðin voru jöfn 25-25 í leikslok. Var þá farið í vítakeppni sem fór í margfaldan bráðabana en að lokum vannst gríðarlega sætur 33-32 sigur og íslenska liðið komið í úrslit. Dagur Árni gerði 5 mörk í leiknum, Jens Bragi 4 og Hugi eitt mark auk þess sem að Óskar varði 6 skot í markinu.

Í úrslitaleiknum mættu strákarnir liði Þýskalands sem reyndist aftur of sterkur andstæðingur. Heimamenn leiddu 20-16 í hálfleik og unnu loks leikinn 34-26 og standa því uppi sem sigurvegarar á mótinu. Jens Bragi gerði 3 mörk í leiknum og Dagur Árni tvö auk þess sem Óskar varði 9 skot í markinu.

En eins og góður maður sagði að þá er gott silfur gulli betra og geta strákarnir verið afar sáttir með framgöngu sína á mótinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is