Ungmennalið KA komið upp í Grill-66 deildina

Handbolti
Ungmennalið KA komið upp í Grill-66 deildina
Strákarnir ansi sáttir eftir góðan sigur í gær

Ungmennalið KA í handboltanum hefur átt frábæran vetur í 2. deildinni og hefur liðið verið í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í Grill-66 deildinni á næsta tímabili. Í gær tóku strákarnir á móti ungmennaliði Aftureldingar og gátu með sigri náð markmiði vetrarins.

KA liðið leiddi leikinn en aldrei voru Mosfellingarnir langt undan og því töluverð spenna í leiknum. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 13-11 fyrir KA og ljóst að strákarnir gátu ekkert slakað á í þeim síðari til að klára verkefnið.

Síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri, KA yfir en gestirnir aldrei langt undan, á endanum tókst strákunum svo að landa 29-26 sigri og var fögnuðurinn í leikslok ansi mikill. Ungmennaliðið mun því leika í Grill-66 deildinni á næsta tímabili en enn eru tveir leikir eftir af þessu tímabili og framundan hörð barátta um Deildarmeistaratitilinn gegn liði Fjölnis.

Þorri Starrason var markahæstur með 10 mörk, Jóhann Einarsson 6, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Arnór Ísak Haddsson 3, Sigþór Gunnar Jónsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Bjarki Reyr Tryggvason 2 og Óli Birgir Birgisson gerði 1 mark.

Svavar Ingi Sigmundsson varði alls 18 skot í leiknum og stóð fyrir sínu. Við óskum strákunum til hamingju með áfangann sem og góðs gengis í baráttunni um titilinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is