KA-lið sem ég vildi borga mikið fyrir að sjá spila
Það er ekki auðvelt að velja besta lið KA skipað þeim leikmönnum sem mér hefur hlotnast sú ánægja að sjá spila undir glæsilegasta félagsmerki sem til er í heiminum. Þegar Jói heimasíðuumsjónarmaður bað mig, gat ég þó ekki skorast undan og hér á eftir koma þeir leikmenn sem ég vildi borga mikið fyrir að sjá spila aftur fyrir KA
Í markið koma margir til greina. Ég var svo heppinn að sjá Árna Stefánsson spila í markinu og hann er ógleymanlegur. Þegar hann lét sig vaða himinhátt í fyrirgjafir og handsamaði tuðruna er mér ógleymanlegt þó ég hafi sennilega bara verið 7-8 ára.
Þorbergur Atla, Steini "í markinu" Jóhannsson, Haukur Braga, Eggert Högni, Sören Byskov - allir mjög eftirminnilegir en af öllum þessum snillingum vel ég núverandi markmann okkar, Matus Sandor, í þessa stöðu. Varamaður hans verður Árni Stef.
Miðverðir. Hér er ekki um annað að gera en velja Erling Kristjánsson. Ég tel okkur enn vera að reyna að finna staðgengil fyrir hann. Erlingur er í mínum augum hr. KA-fyrirliði okkar og sá okkar sem næstur er guði, þökk sé gríðarlegri hæð hans. Þessi hæð nýttist okkur endalaus,t bæði við varnarvinnu og einnig þegar við fengum hornspyrnur, þá tölti ,,Sörli” af stað.
Hörður Hilmarsson lék með okkur og oft í stöðu "sweepers", hann skilaði okkur mjög vel og er tvímælalaust í þessum sterka hóp. Einnig eiga Míló og Steini Birgis. erindi. Einhvern þarf þó að velja til að spila með Erlingi og eftir langa umhugsun og vangaveltur vel ég Einar Þórhallsson sem lék með fyrsta fyrstudeildar liði KA árið 1978. Einar var eins og Beckenbauer, keisari í mínum augum, flottur og fágaður leikmaður, maður með klassa og stíl.
Hörður/Míló/Steini verða klárir á bekknum ef Einar meiðist. Erlingur meiddist aldrei, fór stundum í leikbann þökk sé viðkvæmum dómurum sem þoldu illa vel meintar leiðbeiningar hans. Halli Har. var líka magnaður, gaf alltaf 100% og skilaði vel fyrir okkur.
Bakvörðurinn Ormarr Örlygsson ásamt félaga sínum í vörninni, Erlingi Kristjánssyni
Bakverðir. Mér hefur alltaf þótt mikill ljómi yfir bakvarðastöðum.
Steini Þórarins. heitinn vinur minn kemur fyrstur upp í hugann, harður nagli sem ekki gaf tommu og átti magnaðar sendingar. Steini var vanmetinn leikmaður, vil ég meina. Gaui litli Harðar átti hug og hjörtu manna á tímabili og frasinn "margur er knár þótt hann sé smár" heyrðist oft þegar rætt var um hann. Maggi Vestmann sem vann m.a. í Ríkinu var duglegur vinstri bakk hjá okkur. Friðfinnur Hermanns. var flottur og fyrir móral algjörlega nauðsynlegur. Þú sökkst/sekkur ekki í þunglyndi í návist Fredda. Gunni Gísla sem maður trúði að gæti hoppað hæð sína í fullum herklæðum er svo enn einn af þessum snillingum. Steini Eiðs. var spilari sem gaf okkur miklu meira en hann hefur fengið kredit fyrir eða svo finnst mér og þetta er mitt lið. Ormarr Örlygsson var þó bestur af mörgun góðum og hann byrjar hjá mér, Steini Þórarinss verður á bekknum. Reyndar hefði verið gaman að sjá fyrrverandi fyrirliða okkar, Hauk Heiðar, skottast upp hægri með leiðbeiningar Erlings í eyranu þannig að Haukur má fara að hita upp. Nafna mínum, Gunna Gísla, treð ég í vinstri bakk honum til kannksi ekki gleði, en í raun er heiður að fá að byrja inn á í þessu liði.
Á morgun mun Gunnar síðan fara yfir miðjuna og framherjana, bíðið spennt það er svaka lesning.