Á morgun hefst tímabilið hjá KA-liðinu. Eitthvað sem allir hafa beðið eftir síðan í lok september, fyrir kreppu. Núna hefjast leikar
á Selfossi hjá KA-mönnum og segir fyrirliðinn Arnar Már að sínir menn séu tilbúnir í slaginn.
Arnar Már kom til liðsins fyrir síðasta tímabil frá Akranesi þar sem hann náði ekki að festa sig í sessi og átti
gríðarlega gott sumar sem endaði með því að

hann var valinn leikmaður ársins.
,,Dvölin mín hér hefur bara
verið mjög góð. Við erum með mjög góðan og skemmtilegan hóp sem auðvelt var að komast inní og hjálpaði það
mikið."
,,Svo gekk okkur þokkalega vel síðasta sumar þannig að ég hef ekkert nema gott að segja um dvöl mína hérna á Akureyri, fyrir utan
kannski aðeins of mikil ofankoma á veturna."
,,Mér líst bara mjög vel á sumarið, það er búinn að vera góður stígandi í þessu hjá okkur fyrir utan Fram
leikinn sem var slakur. En það er ekkert nema tilhlökkun fyrir því að komast í alvöru bolta," sagði Arnar Már en hver eru markmið
liðsins fyrir komandi sumar?
,,Markmið okkar hlýtur að vera að gera betur en í fyrra, erum með nánast sama hóp og ungu strákarnir búnir
að styrkja sig. En það þýðir ekkert að vera að spá í það hér, verðum að sanna okkur á vellinum og við
förum klárlega í hvern leik til þess að vinna hann."
Síðasti leikur liðsins á síðasta tímabili var í lok september og hefur liðið því haft marga mánuði til að
undirbúa sig fyrir þetta tímabil, hvernig koma menn undan vetri?
,,Undirbúningurinn er búinn að vera mjög
góður. Dean er búinn að láta okkur svitna eins og skepnur hérna í hverri viku þannig að við erum að minnsta kosti tilbúnir
líkamlega. Svo þarf hausinn bara að vera í lagi þegar í leikina er komið."
Það er enn nánast sami mannskapur og var í fyrra og því ættu leikmenn að vera farnir að þekkja enn betur inn á hvern
annan, hópurinn orðinn þéttari og síðast en ekki síst ungu strákarnir orðnir reynslunni ríkari eftir síðasta tímabil.
,,Ég vil ekki vera að setja pressu á aðra leikmenn hérna en ég trúi ekki öðru en að allir hafi vilja til
þess að bæta sig frá síðasta tímabili. En ef ég þyrfti að nefna einhvern þá held ég að ég eigi eftir að
blómstra mikið í sumar," sagði Arnar og glotti við tönn.
Fyrsti leikur er gegn Selfoss eins og áður hefur komið fram, hvernig leggst leikurinn í Arnar?
,,Mér líst mjög vel á
hann, þetta er tíminn sem allir eru búnir að vera að bíða eftir í allan vetur og er ég mjög spenntur fyrir þessum leik. Selfoss eru
með gott lið og verður þetta ekki auðveld ferð suður, en ég er bara ánægður með að mótið sé að byrja og við
getum farið að sýna hvað við getum."
Vinir Sagga ætla að fylgja liðinu suður en þeir bíða einnig spenntir eftir sumrinu eins og leikmennirnir.
,,Þetta eru auðvitað bara snillingar, þeir náttúrulega tóku ýmsa leikmenn úr liðum andstæðingana bara
á taugum í fyrra og hafa ekki mörg félög hér á landi það öflugt stuðningsmannafélag. Svo hef ég heyrt að þeir
séu bara að verða sterkari, stærri og margir hverjir komnir með aldur til þess að fara í Ríkið þannig að hin liðin skulu fara að
passa sig. Þetta er okkar 12. maður eins og maðurinn sagði."
,,Ég vil bara hvetja fólk til að mæta á völlinn í sumar, það skiptir máli fyrir okkur inná vellinum. Það er fátt
skemmtilegra en að spila fyrir framan fullt af fólki sem þú veist að er að styðja þitt lið."