Byrjunarlið KA var þannig skipað í dag að í markinu stóð Fannar Hafsteinsson, miðverðir voru Gunnar Valur Gunnarsson og Haukur Hinriksson, vinstri bakvörður var Jón Heiðar Magnússon og Kristján Freyr Óðinsson í hægri bakverði. Á miðjunni þeir Brian Gilmour, Jóhann Helgason og Guðmundur Óli Steingrímsson,kantmenn voru Bjarki Baldvinsson (hægra megin) og Hallgrímur Mar Steingrímsson og fremstur Jóhann Örn Sigurjónsson. Fannar markmaður og Kristján Freyr voru í fyrsta skipti í byrjunarliði mfl. KA í móti á vegum KSÍ. Báðir spiluðu þeir allan leikinn og stóðu vel fyrir sínu.
Leikurinn var aðeins rúmlega einnar mínútu gamall þegar dró til tíðinda. Brian Gilmour tók þá aukaspyrnu frá vinstri og sendi hárnákvæma sendingu inn í teiginn. Jóhann Helgason var fljótastur að átta sig og setti boltann auðveldlega í netið.
KA-menn efldust við þetta og á 5. og 6. mínútu skapaði liðið sér tvö mjög góð færi. Fyrst varði markvörður ÍR-inga vel frá Jóhanni Erni eftir flottan undirbúning Bjarka Baldvinssonar og í síðara skiptið setti Brian Gilmour boltann framhjá í upplögðu færi.
Á 32. mínútu meiddist Jóhann Örn og fór af leikvelli og í hans stað kom Davíð Rúnar Bjarnason.
Á 35. mínútu var mikil barátta í vítateig ÍR-inga eftir mikla pressu KA. Gunnar Valur rak endahnútinn á sóknina með góðu skoti. Staðan því orðin 2-0.
Eftir markið hresstust ÍR-ingar eilítið án þess þó að skapa sér nein alvöru færi. KA-menn komust hins vegar í fínt færi undir lok hálfleiksins, en tókst ekki að koma boltanum í netið.
Fátt markvert gerðist á upphafsmínútum seinni hálfleik þar til Guðmundur Óli fékk upplagt færi á 53. mínútu einn á móti markmanni ÍR eftir hraða sókn. Markvörðurinn gerði vel og varði í horn.
Og aftur var Guðmundur Óli á ferðinni á 68. mínútu,en skot hans fór yfir markið. Á sömu mínútunni gerðu KA-menn breytingu á liðinu. Útaf fór Jóhann Helgason en í hans stað kom inn á Þórður Arnar Þórðarson. KA gerði aðra skiptingu á 76. mínútu þegar Jón Heiðar Magnússon fór útaf og inn á kom Jakob Hafsteinsson.
Leikurinn fjaraði út án teljandi færa hjá báðum liðum. Ekki leikur sem fer í sögubækurnar, en góður sigur KA sem aldrei var í hættu. Ágætur dómari leiksins, Jan Eric Jessen, lyfti átta sinnum gula spjaldinu í dag. Fimm sinnum fengu ÍR-ingar að líta það og KA-menn þrisvar.
Þrír leikmenn KA voru á sjúkralistanum í dag; Elmar Dan Sigþórsson, Ævar Ingi Jóhannesson og Ómar Friðriksson. Þá hefur Srdjan Tufegdzic átt við meiðsli að stríða síðustu vikur, en hann var í hópnum í dag án þess að koma við sögu í leiknum. Túfa er byrjaður að æfa eftir meiðslin og verður klár í slaginn áður en langt um líður.
Næsti leikur KA í Lengjubikarnum verður á útivelli laugardaginn 10. mars þegar úrvalsdeildarlið Skagamanna verður sótt heim í Akraneshöllinni.