2. flokkur tapaði naumlega fyrir KR-ingum

Strákarnir í 2. flokki urðu að játa sig sigraða í öðrum leik sínum í Íslandsmótinu þegar þeir sóttu heim KR-inga í Vesturbæinn í dag. KR-ingar skoruðu tvö mörk gegn einu marki okkar manna.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu frá byrjun til enda og var markalaust í hálfleik. KA-strákarnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur og skoraði Jóhann Örn Sigurjónsson fyrsta mark leiksins á 52. mínútu. En eins og í leiknum við Skagamenn í gær tókst okkar strákum ekki að halda forystunni og á 79. mínútu jafnaði Aleksander Kostic leikinn fyrir KR-inga og Davíð Einarsson skoraði síðan sigurmark þeirra á 91. mínútu.

Þeir tveir strákar sem spila með meistaraflokki KA, Davíð Örn Atlason og Jakob Hafsteinsson, voru ekki í byrjunarliðinu í dag en komu inn á í síðari hálfleik. Þá spilaði þriðja flokks markmaðurinn og varamarkmaður meistaraflokks, Fannar Hafsteinsson, báða leikina.