2. flokkur karla hóf í dag leik á Íslandsmótinu. Strákarnir fóru suður á Akranes og kepptu þar við heimamenn í ÍA og gerðu við þá jafntefli í hörkuleik, 3-3.
KA-strákarnir byrjuðu leikinn af krafti og strax á 15. mínútu skoraði Viktor Mikumpeti fyrsta markið og Jóhann Örn Sigurjónsson bætti síðan við öðru marki á 33. mínútu. Staðan því 2-0 í hálfleik fyrir KA. Í síðari hálfleik sóttu Skagamenn í sig veðrið og minnkuðu muninn á 61 mínútu. Þeir skoruðu síðan jöfunarmarkið á 84. mínútu og komust yfir á 87. mínútu. KA-menn neituðu þó að játa sig sigraða og uppskáru jöfunarmark á 93. mínútu, um það sá Jakob Hafsteinsson.
KA-liðið í 2. flokki er ungt að árum. Í liðinu í dag voru þannig tveir í byrjunarliðinu sem eru á eldra ári í þriðja flokki, Ævar Ingi Jóhannesson og Fannar Hafsteinsson. Þá spiluðu með liðinu í dag tveir strákar sem eru í meistaraflokkshópi, Jakob Hafsteinsson og Davíð Örn Atlason, sem er á yngsta ári í öðrum flokki og kom inn á í leiknum gegn ÍR í Boganum í gærkvöld.
KA-strákarnir spila aftur á morgun og mæta þá sterkum KR-ingum í Vesturbænum.