Á 10. mínútu fengu KA-menn horn, Aci átti flottan bolta inn í teiginn og Árni Arnar náði að koma tánni í boltann en marvörður Blika varði, þá var það Davíð Örn Atlason sem var fyrstur að átta sig og slæmdi sinni tá í boltann og hausaði markvörð Blika og KA komnir verðskuldað yfir 1-0.
KA-menn litu mjög vel út í þessum leik voru vel spilandi og sýndu oft og tíðum skemmtilega takta, alveg ljóst að þarna eru KA-menn með góða uppsprettu af leikmönnum.
Fyrri hálfleikur leið hjá tíðindalaus eftir markið, en í þeim seinni gerðust hlutirnir.
Ævar Ingi Jóhannesson byrjaði þessa flugeldasýningu í seinni hálfleik á 60. mínútu með þrumuskoti í slánna og yfir marklínunna en hinn glöggi leikmaður meistaraflokks Davíð Rúnar Bjarnason, sem stóð vaktina ágætlega á hliðarlínunni, sá ekki að boltinn fór yfir línuna og því var ekkert mark. Slobodan Milisic var ekki skemmt.
Það var síðan á 86. mínútu að Blikarnir komust inn í leikinn eftir að hafa fengið vítaspyrnu að gjöf frá dómara leiksins. Úr vítaspyrnunni skoruðu Blikarnir og staðan því 1-1.
KA-menn geystust í sókn, staðráðnir í því að klára leikinn og uppskáru vítaspyrnu tveim mínútum síðar, Aksentije Milisic steig á punktinn og mátti heyra saumnál detta. Aci skaut en markvörður Blika varði glæsilega og skildi Aci eftir í sárum. KA fengu horn strax í kjölfarið og aftur átti Aci flottan bolta beint á kollinn á Davíð Erni sem setti boltann laglega í fjærhornið og KA komnir yfir og 90 mínutur að slá á klukkunni.
En Adam var ekki nema 6 mínútur í paradís því þegar 7 mínutur voru liðnar af uppótartíma fengu Blikar aukaspyrnu á miðjum vellinum, hentu öllum inn í og boltinn datt á kollinn á grænum Blikanum sem skallaði í stöngina og inn og Blikar búnir að jafna 2-2 og leikurinn átti í raun að vera löngu búinn og KA-menn skiljanlega gífurlega svekktir. Dómari leiksins ákvað svo að flauta leikinn af um leið og miðjan var tekin og 2-2 jafntefli því niðurstaðan í háspennuleik.
KA menn eru í 6. sæti A-deildar með 12 stig og geta komið sér í það 4. sigri þeir Þórsara í mikilvægum leik um Akureyri á miðvikudaginn.
Sá leikur hefst klukkan 19:30 á Akureyrarvelli og eru allir hvattir til að fjölmenna á leikinn og styðja strákana!