3 dagar í leik - Pistill: Ungu strákarnir springa út

Þá er komið að hinum árlega pistli frá Sigurði Skúla Eyjólfssyni eða borgarstjóranum eins og hann kallar sig. Hann gefur að líta hér að neðan.


Sumarið 2009 – Ungu strákarnir springa út

Árangur liðsins í fyrra var nokkuð góður, fjórða sæti deildarinnir var mikil bæting frá árinu áður. Ljóst er að Dean Martin og aðstoðarmaður hans, reynsluboltinn Steingrímur Eiðsson, eru að gera góða hluti. Nú er að fylgja því eftir og bæta um betur í ár.

Liðið samanstendur af ungum heimamönnum, öðrum ungum leikmönnum og útlendingum. Allir þeir útlendingar hafa spilað fyrir KA áður svo þeir ættu að vera búnir að aðlagast vel. Lítil breyting hefur orðið á mannskapnum frá árinu áður, að undanskyldum Sveini Elíasi og fyrirliðanum fyrrverandi Elmari Dan sem fór til Noregs í atvinnumennsku. Hans er líklega sárt saknað í herbúðum KA liðsins.

Deildin í ár verður örugglega nokkuð sterk. Skagamenn og HK komu niður úr úrvalsdeildinni og verða væntanlega í toppbaráttunni í ár ásamt Selfoss, Víkingi R. og Akureyrarliðunum.

Möguleikar liðsins á að komast upp í úrvalsdeildina hljóta að vera meiri nú í ár en í fyrra, þar sem meiri reynsla er komin í liðið og ungu strákarnir eru orðnir árinu eldri. Liðið virðist vera í góðu standi þó svo að leikmenn hafi ekki átt neitt erindi í undirritaðann er hann æfði með liðinu sl. helgi, sérstaklega ekki Magnús Blöndal sem var “klobbaður” ítrekað.

Vonandi verður vel mætt á völlinn í sumar og Vinir Sagga haldi uppi góðri stemningu. Ef ungu strákarnir halda áfram að gera góða hluti og bæti sig frá því í fyrra, er mikill möguleiki á því að liðið verði í toppbaráttunni en það er það sem við KA-menn viljum sjá.


Baráttukveðjur,

Borgarstjórinn sjálfur,
Sigurður Skúli Eyjólfsson