4 dagar – Andri Fannar: Tökum bara einn leik í einu

Andri Fannar með boltann í leik KA í vetur.
Andri Fannar með boltann í leik KA í vetur.
Á sunnudaginn hefst tímabilið hjá KA-mönnum. Klárt er að menn eru farnir að hlakka til. KA menn hefja leik í Laugardalnum þar sem þeir mæta Þrótturum þar sem búast má við hörkuleik. Hinn ungi Andri Fannar Stefánsson segir spennu komna í menn og að allir séu klárir.

Andri Fannar hefur verið að vaxa mikið sem leikmaður síðustu ár og á þessu ári mun væntanlega mikið mæða á þessum efnilega leikmanni. Aðspurður hvort spenna og tilhlökkun sé komin í hópinn átti Andri ekki erfitt með að svara. ,,Það er auðvitað komin mikil tilhlökkun í mannskapinn, við erum búnir að hanga inni í Boga síðan í október að æfa og æfa og það væri eitthvað að ef menn væru ekki spenntir fyrir því að byrja tímabilið.“Augljóst að menn eru mjög spenntir fyrir komandi tímabili.

Undirbúningurinn er búinn að vera langur og strangur og liðið fengið nokkuð af leikjum.  ,,Undirbúningurinn hefur gengið vel, menn eru í toppformi og þrátt fyrir að við höfum ekki verið að ná úrslitum í deildarbikarnum þá voru það oftast ágætis leikir. Það er líka búinn að vera stígandi í síðustu leikjum og vonandi heldur hann áfram."

,,Við tökum bara einn leik í einu og reyna að fá sem mest út úr honum. Ef það gengur vel þá endum við eðlilega ofarlega í lok móts og það er klárlega stefnan,“ sagði Andri Fannar.

Andri Fannar hefur verið að spila mikið með yngri landsliðunum í þeirra verkefnum og oftast fengið stórt hlutverk í liði Íslands. En hvernig ætli það sé að spila fyrir hönd Íslands?
,,Það er auðvitað mjög gaman, þar hittir maður góða félaga úr öðrum liðum og svo fær maður auðvitað mikla og góða reynslu úr landsleikjunum.“

Nú hefur Þrótturum verið spáð góðu gengi í sumar enda með góðan hóp og til alls líklegir. Hvernig leggst sá leikur í menn? ,,Menn eru fyrst og fremst spenntir yfir honum og hlakkar til að tímabilið fari almennilega af stað en stemningin í hópnum er góð og það er stefnt á þrjú stig á sunnudaginn.“

Eitthvað hefur verið um brotthvörf frá KA liðinu í vetur og ekki mikið um að nýir leikmenn séu að koma til félagsins. Má búast við að ungu leikmennirnir muni fá fleiri tækifæri í sumar og stíga meira upp en síðustu ár? ,,Það er alveg rétt að hópurinn er ekki mjög breiður og þegar tímabilið er byrjað getur allt gerst, meiðsli og bönn setja strik í reikninginn. Ef ungu strákarnir eru á tánum og standa sig vel á æfingum og leikjum með 2. flokk þá fá þeir pottþétt tækifæri og þá er það bara upp til þeirra að nýta sér það.“

Það er ljóst að menn eru vel stemmdir fyrir sumarið og ætla sér stóra hluti, nú er bara undir okkur stuðningsmönnunum að mæta á völlinn og styðja okkar lið!