4. flokkur karla og kvenna í úrslitakeppni um helgina

Fjórði flokkur karla og kvenna hjá KA standa í ströngu núna um helgina. A-lið beggja flokka eru í úrslitakeppni Íslandsmótsins - strákarnir hér á Akureyri og stelpurnar fyrir sunnan.

Strákarnir í 4. flokki gerðu sér lítið fyrir og skelltu Reykjavíkur-Þrótturum á Akureyrarvelli í gær með fimm mörkum gegn engu. Annar leikur strákanna verður í dag kl. 12 á Þórsvelli þar sem þeir mæta Þórsurum, en þeir töpuðu með sex mörkum gegn einu fyrir Blikum í gær. Síðasti leikur KA-strákanna verður á morgun á Akureyrarvelli kl. 12 þegar þeir mæta Blikum. Sigurliðið í þessum úrslitariðli fer síðan áfram í lokakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

Stelpurnar í 4. flokki áttu á brattann að sækja í fyrsta leik sínum í úrslitakeppninni í gær þegar þær mættu Blikastelpum. Þær grænklæddu höfðu fimm núll sigur. Annar leikur stelpnanna verður á Smárahvammsvelli klukkan 14 í dag þegar þær mæta stöllum sínum úr Grindavík, en þær töpuðu einnig í gær fimm núll fyrir FH. Síðasti leikur KA-stelpna verður á sunnudag kl. 12 gegn FH í Kaplakrika.