5-3 sigur KA1 á KF í Hleðslumótinu

Jóhann Helgason og Elmar Dan Sigþórsson í baráttunni í leiknum í gær. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.
Jóhann Helgason og Elmar Dan Sigþórsson í baráttunni í leiknum í gær. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.

KA1 sigraði KF með fimm mörkum gegn þremur í miklum baráttuleik í Boganum í gær þar sem dæmdar voru þrjár vítaspyrnur, fjöldi gulra spjalda fór á loft og eitt rautt. Þar með endaði KA1 með fullt hús stiga í riðlinum og spilar til úrslita í Hleðslumótinu gegn annað hvort Þór1 eða Dalvík/Reyni, en þessi lið mætast í dag og dugar Þór1 jafntefli til þess að halda efsta sæti riðilsins og spila úrslitaleikinn gegn KA1.

Byrjunarliðið sem KA stillti upp í gær var þannig skipað: Í markinu var Sandor Matus, Elmar Dan Sigþórsson og Haukur Hinriksson voru miðverðir, Gunnar Valur Gunnarsson var i vinstri bakverðinum og Ómar Friðriksson í þeim hægri. Á miðjunni voru Brian Gilmour, Jóhann Helgason og Bjarki Baldvinsson. Á vinstri kanti var Guðmundur Óli Steingrímsson og Ævar Ingi Jóhannesson á þeim hægri og Davíð Rúnar Bjarnason var fremstur.

Í hálfleik fór Elmar Dan út af og inn kom Jón Heiðar Magnússon í vinstri bakvörðinn og þá færði Gunnar Valur sig í miðvörðinn á móti Hauki Hinriks. Síðar í seinni hálfleik komu inn á þeir Jakob Hafsteinsson, Þórður Arnar Þórðarson, Jóhann Örn Sigurjónsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fyrir Brian Gilmour, Guðmund Óla, Ævar Inga og Davíð Rúnar.

KF- með þrjá Ungverja í sínum herbúðum sem þeir eru nú með á reynslu - byrjaði leikinn af krafti, en fljótlega náði KA tökum á honum og uppskáru mark á 19. mínúutu þegar Elmar Dan sneiddi boltann laglega í netið eftir aukaspyrnu frá vinstri.
Strax mínútu síðar jafnaði KF þegar Þórður Birgisson átti gott skot að marki, hann fór í Elmar Dan sem breytti stefnunni og í markið fór boltinn. Staðan því orðin 1-1.
Á fertugustu mínútu fékk KA víti þegar Ævar Ingi Jóhannesson var klipptur niður inni í teignum. Guðmundur Óli tók spyrnuna og skoraði af öryggi. Staðan því 2-1 í hálfleik.
Á 49. mínútu fékk KF einnig dæmt víti fyrir brot innan teigs. Þórður Birgisson skoraði af öryggi.
KA var eins og í fyrri hálfleik með undirtökin í leiknum, en KF voru hins vegar hættulegir fram á við. Á 85. mínútu komst KA aftur yfir. Aukaspyrna var dæmd rétt utan teigs. Jóhann Helgason þrumaði boltanum í glæsilegum boga framhjá varnarveggnum og í markmannshornið. Frábært mark!
Hallgrímur Mar bætti fjórða markinu við þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartímanum með frábæru langskoti frá vinstri í vinkilinn fjær.
Þórður Birgisson skoraði þriðja mark sitt og KF úr víti á 94. mínútu eftir að Jóhann Helgason handlék boltann innan teigs.
KA-menn létu ekki þar við sitja og Bjarki Baldvinsson setti punktinn yfir i-ið í þessum fjörmikla marka- og spjaldaleik með góðu skoti úr markteignum.

Þess má geta að tveir KA-menn spiluðu með KF í leiknum í gær - og hafa gert í þessu móti - Sigurjón Fannar Sigurðsson og Arnór Egill Hallsson.