5.dagar: KA spáð 6.sæti af fyrirliðum og þjálfurum

Í árlegri spá fyrirliða og þjálfara 1.deildar á vefsíðunni Fótbolti.net er okkur KA-mönnum spáð 6. sæti í deildinni í sumar eða tveim sætum ofar en við enduðum í fyrra. Garðar Gunnar Ásgeirsson er sérfræðingur Fotbolti.net í þessum spádómi og hann hafði þetta  að segj um KA-liðið:


"Styrkleikar: Varnarleikur KA er nokkuð sterkur. Þeir eru vel skipulagðir og spila nokkuð þéttan varnarleik. Þeir fengu 10 mörk á sig í 7 leikjum í Lengjubikarnum en 4 af þeim leikjum voru gegn úrvalsdeildarliðum. Það eru ekki mörg 1. deildarlið sem fá þetta fá mörk á sig gegn liðum úr efstu deild. 


Veikleikar: Breiddin hjá þeim er ekki nægilega mikil þó byrjunarliðið sé vissulega fínt. Það er spennandi að sjá hvort þeir nái að bæta í hópinn á síðustu dögunum fyrir mót því þeir þurfa að auka breiddina. Þeir hafa leitað að markaskorara en hann hefur enn ekki fundist. 


Lykilmenn: Sandor Matus, Gunnar Valur Gunnarsson og Jóhann Helgason. 


Gaman að fylgjast með: Jóhann Helgason er feykilega mikill styrkur fyrir þetta lið. Flottur leikmaður með stórkostlegan vinstri fót. Maður sem getur klárað lið upp á sitt einsdæmi. 


Þjálfarinn: Gunnlaugur Jónsson hefur að mínu mati sannað sig nokkuð vel sem þjálfari hér á landi. Hann gerði mjög góða hluti á Selfossi og mér fannst hann standa sig vel með Val í erfiðu umhverfi á Hlíðarenda. Svo náði hann öllu sem hægt var að ná út úr KA í fyrra að ég tel. Klár þjálfari sem mun ná miklu út úr KA í sumar. "



Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=125726#ixzz1uBHeSWbW

 

 

 

Um þessa spá hefur Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA, þetta að segja í viðtali á Fotbolti.net:

 

,,Þessi spá sýnir væntingar þjálfara og fyrirliða hinna liðanna til okkar og hef ég ekkert útá það að setja. Við ætlum okkur ofar, það er klárt," segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA.

,,Það er skýrt markmið að við ætlum að taka þátt í þessari toppbaráttu. Við sjáum hvernig við förum af stað og hvort við getum einblínt á að fara upp, það verður að koma í ljós um miðbik móts en það er ljóst að við ætlum að berjast í efri hlutanum eftir að hafa verið í þeim neðri í fyrra."

KA endaði í áttunda sæti í fyrstu deildinni í fyrra eftir að hafa verið í vandræðum framan af sumri.

,,Þetta var mjög lærdómsríkt tímabil í fyrra. Það kom í ljós að við vorum með full ungt lið í byrjun tímabils en við fengum inn reynslumikla menn um miðbik móts. Síðari umferðin var góð og við byggjum á því. Við höfum síðan fengið sterka inn í hópinn og þeir styrkja liðið mikið."

Í vetur hefur KA krækt í Jóhann Helgason, Gunnar Val Gunnarsson og Bjarka Baldvinsson.

,,Við erum komnir með þessa reynslu sem vantaði þegar tímabilið byrjaði í fyrra. Með tilkomu Jóa Helga og Gunnars Vals fáum við ekki bara reynda leikmenn heldur reynda KA-menn. Þeir hafa verið mjög stöðugir í sínum leik og það er mikill fengur í þeim. Þrátt fyrir að Bjarki sé ekki gamall þá hefur hann verið lykilmaður á Húsavík í mörg ár þannig að við erum ánægðir með þessa leikmenn og þá sterku leikmenn sem við fengum um miðbik móts í fyrra."

Gunnlaugur hefur í vetur gert mikla leit að framherja en enginn slíkur hefur þó komið til KA ennþá.

,,Sú leit hefur ekki borið árangur og hún stendur enn yfir. Við verðum að sjá hvort þetta hefst ekki fyrir 15. maí þegar glugginn lokar. Ég er engu að síður nokkuð sáttur við undirbúningstímabilið. Þeir sem hafa spilað þar hafa sýnt að þeir geta vel leyst þetta verkefni en engu að síður þurfum við að styrkja liðið aðeins fram á við," segir Gunnlaugur sem býst við spennandi deild.

,,Fyrir fram á ég von á jafnara móti en í fyrra. Ég held að mótið verði hugsanlega tvískipt og það verði kannski ekki eins afgerandi lið og Selfoss og ÍA voru í fyrra. Ég á von á fjörugu og spennandi móti þar sem jafnvel sex eða fleiri lið gætu barist um að fara upp."