Jóhann Helgason, oft kenndur við Sílastaði, gekk í raðir KA á nýjan leik nú í október eftir að hafa spilað hjá Grindavík frá 2006. Hann er uppalinn hjá KA og hefur leikið 51 leik í deild og bikar fyrir félagið en það var frá 2002 til 2005. Það má segja að Jóhann sé hvalreki á strendur KA en leikmaðurinn er gífurlega reynslumikill, með 122 leiki í meistaraflokki og á örugglega eftir að reynast KA vel í sumar.
Eftir svona langa fjarveru að heiman kveðst Jóhann ánægður með að komast í KA-treyjuna og í KA- heimilið á nýjan leik. ,,Það er mjög góð tilfinning að spila aftur í KA-búningnum og mæta í KA-heimilið, Ég hef hins vegar verið fyrir sunnan í vetur og hef því ekki fengið alla upplifunina, en er að fara flytja norður núna um helgina og það er bara spenningur fyrir því,” segir Jóhann.
Tilhlökkun er fyrir sumrinu og er hópurinn vel samstilltur og líst Jóhanni vel á komandi sumar. "Mér finnst vera meiri áhugi og spenningur hjá fólki fyrir sumrinu en oft áður og bara almennur meðbyr með liðinu. Svo er ég líka bara gríðarlega spenntur að vera fyrir norðan í sælunni í sumar.”
Það hefur varla farið framhjá neinum að Jóhann hefur hreinlega raðað inn mörkunum á undirbúningstímabilinu og hér að neðan er hægt að sjá tölfræði yfir mörk hans fyrir Grindavík á 5 árum og fyrir KA bara í vetur. Hann hefur aldrei verið þekktur fyrir mörkin og segir að það sé góð ástæða fyrir þessari nýjung ,,það er nú það” segir Jóhann brosandi og heldur áfram:
,,Í fyrsta lagi, þá er ég að spila framar en ég hef gert áður þar sem ég hef verið að spila meira varnarsinnað hlutverk, einnig þá er það nú oft svo að þegar maður skorar eitt eða tvö mörk þá fær maður ákveðið sjálfstraust og maður fer klárlega langt á því! Í þriðja lagi þá hef ég bara mjög gaman að því að spila fótbolta í augnablikinu og í raun búinn að finna leikgleðina aftur ef svo má að orði komast. Svo höfum við Emmi (Elmar Dan) náttúrulega yfir að ráða gríðarlegu "kemestrí" á milli okkar og erum að leggja upp á hvor annann alveg hægri, vinstri! Nú er bara að vona að mörkin haldi áfram að koma þegar þau fara virkilega að telja,” sagði Jóhann.
Aðspurður út í andann í hópnum segir Jóhann að hann sé mjög góður en grínast með það, að það sé í það mesta af Húsvíkingum í hópnum. ,,Andinn er mjög góður bara og þá sérstaklega eftir velheppnaða æfingaferð til Þorlákshafnar þar sem hópurinn þjappaðist vel saman innan sem utan vallar! Það er svona í það mesta af Húsvíkingum í liðinu en það svo sem sleppur,” sagði Jóhann léttur.
KA endaði í 8. sæti í fyrra eftir tvískipt tímabil, slæman fyrri hluta en frábæran seinni hluta þar sem liðið var með þriðja besta árangurinn, en Jóhann segir að liðið eigi alveg möguleika á því að vera í toppbaráttunni þetta árið, en það séu mörg sterk lið þetta árið.
,,Ég tel að við eigum raunhæfa möguleika á að vera í toppbaráttu þetta sumarið miðað við spilamennskuna og úrslit á undirbúningstímabilinu. Liðið er klárlega sterkara en undanfarin ár og þá sérstaklega að því leyti að það eru komnir inn menn með reynslu, en það hefur mér fundist vanta hjá liðinu. Það er fullt flottum fótboltamönnum í þessu liði og ef menn hafa trú á verkefninu þá eigum við eftir að vera þarna í baráttunni. Þó þarf að hafa í huga að deildin er töluvert sterkari en í fyrra og svona fljótt á litið þá eru svona 6-8 lið í deildinni sem ætla sér að blanda sér í þessa baráttu og því á ég von á mjög jafnri og skemmtilegri deild í sumar. En það er alveg ljóst að ég hef aldrei farið inná völl og ekki ætlað að vinna!!,” sagði Jóhann harðákveðinn í því að vinna sem flesta leiki í sumar.
Að lokum vildi Jóhann biðla til okkar KA-manna:
“Ég vil sjá stuðningsmenn flykkjast á völlinn í sumar og láta vel í sér heyra, því það þurfa allir að leggja eitthvað að mörkum í baráttunni í sumar," sagði Jóhann Helgason að lokum.